Krónan Akureyri

Eitt stærsta útgerðarfélag heims kaupir meirihluta í VélfagiMynd: Silfá Huld Bjarmadóttir

Eitt stærsta útgerðarfélag heims kaupir meirihluta í Vélfagi

Gengið hefur verið frá sölu á 54,5 % hlut í Vélfagi ehf til rússneska fyrirtækisins Norebo, eins stærsta útgerðarfélags heims. Stofnendur Vélfags, Bjarmi Arnfjörð Sigurgarðarsson og Ólöf Ýr Lárusdóttir seldu hlut í félaginu og um leið var hlutafé aukið. Kaupverð er trúnaðarmál.

„Viðskiptin eru afar ánægjuleg fyrir Vélfag og gríðarleg viðurkenning fyrir eigendur og starfsfólk fyrirtækisins. Mikill fengur er í Norebo sem hluthafa og samstarfsaðila, kaupin styrkja mjög stoðir Vélfags og búa fyrirtækið undir aukið þróunarstarf og verulega aukningu í framleiðslu,“ segir í tilkynningu.

Vélfag var stofnað árið 1995 af þeim Bjarma og Ólöfu. Fyrst í stað var fyrirtækið í þjónustu við fyrirtæki í sjávarútvegi en fljótlega hófu starfsmenn Vélfags að þróa og framleiða vélar fyrir fiskvinnslu.

„Óhætt er þó að segja að fyrirtækið hafi lagt mikinn metnað og kraft í þróun á vélum, sem hefur skilað mjög góðum árangri. Vélfag er framsækið nýsköpunarfyrirtæki, sem byggir á öflugu frumkvöðlastarfi. Fyrirtækið hefur hlotið nýsköpunarverðlaun og á síðasta ári fékk það nýsköpunarstyrk að upphæð 50 milljónir frá Rannís Tækniþróunarsjóði til þróunar á vél, sem er í einkaleyfisferli. Í farvatninu eru stórir sölusamningar og óhætt að segja að framundan séu mjög áhugaverðir og bjartir tímar hjá Vélfagi,“ segir í tilkynningu.

Stofnendur Vélfags, Bjarmi og Ólöf, gleðjast mjög á þessum tímamótum: „Við fögnum þessum merka og mikilvæga áfanga í sögu Vélfags. Við erum sannfærð um að þetta sé mikið gæfuspor enda mun aðkoma Norebo skjóta styrkum stoðum undir Vélfag til að takast á við krefjandi framtíð og tryggja jafnframt áframhaldandi þjónustu og gæði fyrir bæði núverandi og framtíðar viðskiptavini. Framundan eru gríðarmiklar áskoranir í vinnslu og meðferð sjávarafurða í breyttri heimsmynd. Við hlökkum mikið til að takast á við þessi spennandi tækifæri með því öfluga og metnaðarfulla fyrirtæki sem Norebo er.“

Stjórn félagsins munu skipa Finnbogi Baldvinsson fyrir hönd Bjarma og Ólafar, en aðrir í stjórn eru Soling Yip, fjármálastjóri Norebo Overseas Holding og Pavel Kosolapov, framkvæmdastjóri tæknimála hjá Norebo Group. Framkvæmdastjórar Vélfags verða sem áður Bjarmi Arnfjörð Sigurgarðarson og Ólöf Ýr Lárusdóttir.

Sambíó

UMMÆLI

Ketilkaffi