Elísabet Davíðsdóttir sigraði Hæfileikakeppni Akureyrar 2022Elísabet Davíðsdóttir ásamt dómnefnd. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson.

Elísabet Davíðsdóttir sigraði Hæfileikakeppni Akureyrar 2022

Barnamenningahátíð á Akureyri er í fullum gangi víða um bæ. Í gær var Hæfileikakeppni Akureyrar haldin í Menningarhúsinu Hofi í þriðja sinn. Í ár stigu 69 börn og ungmenni í 4. til 10. bekk á stokk í 32 atriðum á stóra sviðinu í Hamraborg. Fjölskyldur og vinir létu sig ekki vanta og var góður rómur gerður að frammistöðu unga fólksins.

Sigurvegari var Elísabet Davíðsdóttir, 11. ára, með dansatriðið „Ring Around the Roise“ en hún hefur æft dans frá fjögurra ára aldri. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.

„Ég er rosalega glöð og þakklát yfir að hafa unnið. Hugmyndin að atriðinu kemur frá kennurunum mínum hjá Dansstúdíó Alice. Atriðið er líka að fara á heimsmeistaramótið Dance World Cup á SAN Sebastían á Spáni í sumar,“ segir Elísabet í spjalli við Akureyri.is.

Í öðru sæti var Jóhann Valur Björnsson en hann spilaði frumsamið efni á flygil, og í þriðja sæti var hljómsveitin Brekkubræður, Egill Ásberg Magnason, Emil Halldórsson, Sigurður Hólmgeirsson, Birgir Ívarsson og Tómas Bjarkason.

Sérstök aukaverðlaun fékk hópurinn Saumaklúbburinn sem tók lagið Kúst og fæjó. Í Saumaklúbbnum eru Katrín Birta Birkisdóttir, Katrín Markúsdóttir og Una Lind Daníelsdóttir.

Hæfileikakeppni Akureyrar er styrkt af Barnamenningarsjóði Akureyrar og haldin af Félagsmiðstöðvum Akureyrar í samstarfi við Menningarhúsið Hof.

Hægt er að skoða fjölbreytt og spennandi viðburðadagatal Barnamenningahátíðarinnar á barnamenning.is

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó