Endurbætur á gatnamótum Hörgárbrautar og Hlíðarbrautar

Endurbætur á gatnamótum Hörgárbrautar og Hlíðarbrautar

Í þessari viku hefjast framkvæmdir á gatnamótum Hörgárbrautar og Hlíðarbrautar. Þetta kemur fram á vef bæjarins.

Þar segir að gatnamótin séu illa farin, aðallega vegna jarðsigs, og kominn sé tími á meiriháttar endurbætur.

„Fjarlægja þarf allt malbik af gatnamótunum, hækka götuna á stórum köflum, jafna undir nýtt malbik og malbika. Samhliða því verður lýsingin bætt og umferðarljósastaurar færðir í takt við það sem gerist á öðrum gatnamótum bæjarins. Í stuttu máli verða þessi fjölförnu gatnamót eins og ný að framkvæmdum loknum,“ segir á akureyri.is.

Vegagerðin og Akureyrarbær buðu út endurgerðina og var í framhaldinu samið við Nesbræður.

Búast má við umferðartöfum á svæðinu meðan á framkvæmdum stendur, þótt reynt verði að halda lokunum í lágmarki. Áætlaður verktími eru tveir mánuðir en veðrið hefur þar mikið að segja og er óvíst á þessari stundu hvort takist að ljúka frágangi fyrir mestu vetrartíðina, en það er markmiðið.

UMMÆLI