Kvennaathvarfið
Færeyjar 2024

Fataskiptamarkaður á Amtsbókasafninu

Fataskiptamarkaður á Amtsbókasafninu

Á morgun, laugardaginn 26. nóvember verður haldinn Fataskiptamarkaður á Amtsbókasafninu í tilefni nýtniviku. Viðburðurinn er á vegum Akureyrarbæjar og PikNik fatadeilihagkerfis.

Nýtnivikan er í fullum gangi og fataskiptamarkaðurinn er hluti af dagskrá vikunnar. „Þetta er auðvitað á fullkomnum tíma til að sporna við ofkaupum á Black Friday þar sem best fyrir jörðina og veskið væri auðvitað að mæta á þennan markað og skiptast á fötum,“ segir Katla Eiríksdóttir, verkefnastjóri hjá Vistorku.

Evrópska Nýtnivikan er samevrópskt átak sem er nú haldið á Akureyri í fimmta sinn. Markmið vikunnar er að vekja fólk til vitundar um nauðsyn þess að draga úr magni úrgangs meðal annars með því að lengja líftíma hluta, samnýta hluti og stuðla almennt að því að hlutir öðlist framhaldslíf frekar en að enda sem úrgangur.

Þema ársins 2022 er sjálfbærni og hringrás textíls undir slagorðinu Sóun er ekki lengur í tísku. Textíliðnaðurinn er einn sá umfangsmesti í heimi og honum fylgir gríðarleg efnanotkun, ferskvatnsmengun og losun gróðurhúsalofttegunda svo það skiptir miklu að draga úr sóun textíls.

Í tilefni vikunnar verður blásið til Fataskiptamarkaðar. Langar þig í föt en viltu á sama tíma draga úr fatasóun? Mættu þá með spjarirnar á fataskiptimarkað á Lestur Bistro á Amtsbókasafninu laugardaginn 26. nóvember frá klukkan 12 til 15.

Fataskiptin ganga þannig fyrir sig að fólk mætir með heilar og hreinar flíkur sem það hefur ekki not fyrir lengur (eða hefur aldrei haft not fyrir) og finnur önnur föt sem henta því í staðinn.

Öll fötin verða lögð í eitt púkk. Öll geta gefið eins mikið af fötum og þau vilja og fengið í staðinn eins mikið af fötum og þau vilja. Það er líka í góðu lagi að gefa föt en fá ekkert í staðinn eða öfugt.

Viljir þú aðeins losa þig við föt er þér frjálst að koma með þau í dag, föstudag, fyrir markaðinn á morgun eða á meðan markaðnum stendur.

Kaffihúsið verður opið.

UMMÆLI

Sambíó