BARR

Ferfættir fjölskyldumeðlimir, félagslegt húsnæði og leyfisgjöld

www.danielstarrason.com

Mannskepnan býr yfir þeim ótrúlega hæfileika að geta myndað föst eða náin tengsl við allan fjárann. Við tölum við bílana okkar, skömmumst við tölvuna þegar eitthvað bilar og við gefum furðulegustu hlutum nöfn og persónugerum þá í umgengni okkar við þá. En það er fátt sem er auðveldara að mynda tengsl við en það sem að svarar á móti, bregst við nærveru okkar og sýnir okkur athygli.
Þannig myndum við tengsl við aðrar manneskjur en einnig aðrar dýrategundir. Þar verða til misflókin vináttusambönd og önnur sambönd þar sem að báðir aðilar treysta á hvern annan að minna eða meira leiti.

Þetta er hornsteinn ábyrgs gæludýrahalds. Þó svo að enn finnist fólk sem sér gæludýr sem lítið meira en skrautmuni þá er það einföld sálfræðileg staðreynd að þau eru mikið meira en það.
Gæludýrin veita okkur margt. Frá einföldum félagsskap sem fylgir því að deila rými með annari lifandi veru yfir í þá ábyrgðartilfinningu að vita að hún treystir á þig til að sinna öllum hennar þörfum.
Gæludýrin okkar skipa þannig allt annan sess í okkar lífi en sem einfaldar eignir og hafa þau þar af leiðandi talsverð áhrif á líðan okkar.

Þegar kemur að stærri dýrum sem að þurfa meiri athygli, svo sem köttum og hundum, eru áhrif á andlega og líkamlega heilsu umtalsverð. Sérstaklega fyrir jaðarsetta einstaklinga, öryrkja og aldraða.
Jafnvel lítill hundur þarf einhverja hreyfingu. Þetta hvetur fólk til þess að hreyfa sig sjálft og fara út með dýrið. Jafnvel bara stutta göngutúra eða stuttar heimsóknir á afgirt hundasvæði. Eða bara það að fara út í eigin garð eru einnig hreyfing fyrir eigandann og koma honum út úr íbúð sinni þó ekki nema í þessa smá stund. Öll hreyfing er betri en engin en þessar ferðir út af heimili geta einnig orðið til þess að rjúfa félagslega einangrun og það ofan á þá staðreynd að félagsskapurinn af dýrahaldi getur nægt til þess að rjúfa vítahring einmannaleika og depurðar.

Sumstaðar í veröldinni hafa kvíða- og þunglyndissjúklingar fengið þannig viðurkennt af læknum að gæludýr þeirra séu til staðar til að létta á einkennum geðsjúkdóma þeirra og eigi því að fá að fara með eigendunum hvert svo sem þeir fara.

Það er því ekkert skrítið að fólk kalli í aukum mæli eftir heimildum til gæludýrahalds í félagslegum íbúðum og það er stefna Pírata á Akureyri.

Þeir samfélagshópar sem líklegastir eru til þess að þurfa aðgengi að félagslegu húsnæði eru nefnilega akkúrat þeir sem að myndu njóta mestrar aukningar á lífsgæðum fái þeir leyfi til þess að halda gæludýr við hæfi.

Við Píratar viljum einnig endurskoða leyfisgjöldin.

Hér í sveitarfélaginu, rétt eins og í öðrum sveitarfélögum landsins, eru bæði hundar og kettir leyfisskyld gæludýr og það kostar talsverða fjármuni ár hvert að eiga slík dýr.

Lög hvað varðar leyfisgjöld af þessu tagi eru þau að sveitarfélagið má ekki rukka meira fyrir leyfið en það kostar sveitarfélagið. Leyfin eru ætluð til þess að greiða bæði fyrir alla þjónustu við gæludýraeigendur og allan þann aukakostnað sem verður til af dýrahaldi innanbæjar.

Hver þessi kostnaður síðan er nákvæmlega virðist enginn vita.

Þjónusta við hundaeigendur á Akureyri er afar takmörkuð og hefur minnkað með árunum. Þjónusta við kattaeigendur er engin.

Það er einnig vel vitað að hér í sveitarfélaginu eru mikið fleiri kettir og hundar en eru skráðir og virðist reynast erfitt að leiðrétta þetta.

Í núverandi stöðu eru semsagt hluti ábyrgra gæludýraeigenda að niðurgreiða óþekktan kostnað fyrir óþekktan fjölda annara gæludýraeigenda sem tíma ekki háum leyfisgjöldum fyrir takmarkaða ef einhverja þjónustu sem nýtist þeim ekki.

Það þýðir ekki að það sé enginn kostnaður af því að halda utan um skráningar, sinna auknum þrifum innan sveitarfélagsins eða því að kalla til meindýraeyði. En það veit enginn hunda- eða kattareigandi hver hann er. Hvað þá hver kostnaðurinn er árlega á hvert dýr.

Með lægri gjöldum, bættri þjónustu og aukinni upplýsingagjöf um leyfisgjöldin og hvaða réttindi og skyldur þeim fylgja, væri því vel hægt að auka skráningu leyfisskyldra dýra á svæðinu og mæta kostnaði við að leyfa dýrahald í sveitarfélaginu á réttlátari og skilvirkari máta.

Þá væri hægt að skoða afslætti sem hvata til þess að sækja námskeið, sinna þjálfun, bættri umönnun, ábyrgð gagnvart umhverfi o.s.frv.
Einnig væri hægt að skoða afslætti til öryrkja og aldraðra.

Þó að þetta sé sértækt mál og lítið í stóra samhenginu í augum margra þá er þetta dæmi um mál þar sem að með auknu gegnsæi og bættu samráði við þá sem málið varðar er hægt að finna betri lausn fyrir alla.

Hans Jónsson, þriðja sæti á lista Pírata á Akureyri.

UMMÆLI