Fjögur ný verk í Pastel ritröð

Fjögur ný verk í Pastel ritröð

Fjórum nýjum listaverkum í Pastel ritröð verður fagnað á tveimur stöðum hér á landi á næstunni. Í Mengi í Reykjavík í dag og næstu helgi á Akureyri á A-gjörningalistahátíð í rými Kaffi&List laugardaginn 3. október klukkan 16 til 17.

Verkin eru númer 20-23 í Pastel ritröð:

  • nr 20 Brák Jónsdóttir og Þórir Hermann Óskarsson: Preluding with fragmental elements.

Brák Jónsdóttir nemur myndlist við Listaháskóla Íslands og hefur komið að starfsemi Alþýðuhússins á Siglufirði og Kaktus á Akureyri. Þórir Hermann Óskarsson er tónlistamaður og tónskáld búsettur í Búdapest. Þau koma hér saman í Preluding í flæði af tónum og myndbrotum.

  • nr 21 Magnús Helgason: Regnbogar eru ekki hundamatur.

Magnús er meðal okkar fremstu myndlistamanna starfandi norðan heiða og vinnur nær alfarið að eigin listsköpun. Verkið Regnbogar samanstendur af styttri frásögnum og myndefni.

  • nr 22Hekla Björt Helgadóttir: Stalín, ástin mín.

Hekla starfar á Akureyri og vinnur aðallega að myndlist, en einnig ritlist. Hún er einn af höfuðpaurum menningarfélagsins Kaktus. Stalín er fyrsta skáldsaga Heklu.

  • nr 23 Ármann Jakobsson: Goðsögur.

Ármann er meðal fremstu núlifandi rithöfundur okkar Íslendinga og afkastamikill á því sviði. Hann kemur einnig fjölmörgu frá sér sem fræðimaður og er prófessor í íslenskum miðaldafræðum við Háskóla Íslands. Hann býður okkur hér upp á safn nútímagoðsagna.

Pastel ritröð er vettvangur mjög ólíkra listamanna að norðan og sunnan, til listsköpunar og sameiginlegs viðburðarhalds. Pastel virkar einnig vel til kynningar á bókverkagerð sem listformi og til tengslamyndunar nýgræðinga og reynslubolta í skapandi geiranum. Hér geta líka reyndari listamenn farið út fyrir sinn eigin ramma eða hliðrað vinnslurammanum til og reynt nýtt.

Aðrir listamenn sem nú þegar eiga verk í röðum Pastel ritraðar eru, frá 2017-2019: Margrét H. Blöndal (myndlist), Þórgunnur Oddsdóttir (myndlist/fjölmiðlun), Kristín Þóra Kjartansdóttir (ritlist/menningarstjórnun), Megas (tónlist/ritlist), Hlynur Hallsson (myndlist), Bjarni Jónsson (leikritun/þýðingar), Karólína Rós Ólafsdóttir (ritlistanemi, ljóðlist), Vilhjálmur B. Bragason (vandræðaskáld/leikritun), Hallgerður Hallgrímsdóttir (myndlist), Lilý Erla Adamsdóttir (myndlist/ljóðlist), Sölvi Halldórsson (íslenskunemi/ljóðskáld), Ragnhildur Jóhanns (myndlist), Arnar Már Arngrímsson (ritlist), Samúel Lúkas (kvikmyndahandritun), Áki Sebastian Frostason (hljómsköpun), Brynhildur Þórarinsdóttir (ritlist/barnabókmenntir), Haraldur Jónsson (myndlist), Jónína Björg Helgadóttir (myndlist), Þórður Sævar Jónsson (ritlist/bókvarsla). – Í undirbúningi eru fimm verk, sem koma út á árinu 2021.

Verkin eru hvert og eitt ólík blanda myndefnis og texta, sum meira af einu en öðru. Þau eru listaverk í ritaformi. Ritin eru fíngerð, vandræðalaus og innihaldsrík. Útlitslega séð skapa þau litríka og glaðlega, en fyrirferðalitla heild á hillu heimilis eða vinnustaðar. Þau falla einkar vel inn í hvers konar hversdagslegt umhverfi og fara vel í jakkavasa, þannig að hægt er að grípa í þau inná milli annarra verka. Eða jafnvel taka þau með í útileguna. Hugsanlega gera þau sig jafnvel einna best í fjallgöngu og smellpassa í hliðarvasa bakpokans, án þess þó að íþyngja göngumanni. Hönnun og umbrot er í höndum Júlíu Runólfsdóttur.

Pastelritin eru hvert á sinn hátt skýrar og hnitmiðaðar skráningar á upplifunum, skynjunum og túlkunum viðkomandi höfundar á margræðum og síbreytilegum samtíma okkar. Hér birtast okkur ljósmyndir, myndbrot, teikningar, dagbókarbrot, frjálslegri prósar, formfastur ljóðabálkur, smásögur, örleikrit, skáldsaga – allt eftir því um hvaða verk er að ræða. Fyrirmyndir okkar eru fundagerðir sýslunefndar Suður-Þingeyjarsýslu frá miðri seinustu öld.

Í þeim sama anda, þá finnst okkur fátt ánægjulegra en einmitt að lesa eða fremja verkin fyrir hóp fólks yfir morgunverðinum eða í heita pottinum í sundi, hvarvetna þar sem fólk er við venjubundnar athafnir. Við komum auðvitað líka mjög gjarnan fram á formlega skipulögðum menningarvettvangi.

Hægt er að nálgast eintök til að eiga í Hafnarhúsinu-Listasafni Reykjavíkur, Listasafninu á Akureyri (úrval) og í Flóru á Akureyri. Sumir eru líka í áskrift og fá ritin jafnvel send heim. Einnig er hægt að kaupa stök rit og fá send. Hvert rit kemur eingöngu út í 100 númeruðum eintökum, árituðum af höfundi. Engin endurprentun mun verða. Verð: 2.500/stk.

Pastel er fjármagnað af listafólkinu sjálfu, Flóru menningarhúsi, Uppbyggingarsjóði Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi-Eystra, Menningarsjóði Akureyrar-Akureyrarstofu og Ásprenti – auk sölu eintaka. Aðrir samstarfsaðilar áður ótaldir eru meðal annarra Röstin Residency / Sauðaneshús Langanesi, Menningamiðstöð Þingeyinga, Keramikdansfestival Bárðardal, Alþýðuhúsið á Siglufirði, Sundlaug Akureyrar, Listasafnið á Akureyri, Amtsbókasafnið á Akureyri, og Mengi í Reykjavík.

Pastelritin eru nú þegar öll í eigu átta safna á Íslandi.

Sambíó

UMMÆLI