Forgangur lausagöngu katta á Akureyri

Forgangur lausagöngu katta á Akureyri

Á heimasíðu bæjarins má finna skjal sem nefnist „Umhverfis- og samgöngustefna Akureyrarbæjar. Þar er m.a. þetta í texta á fyrstu síðu: 

Stefna Akureyrarbæjar er að sveitarfélagið verði áfram í fremstu röð þegar kemur að umhverfismálum. 

Síðan áfram, Úr lið 1.4.: Unnið verður að því að bæta græn svæði í bæjarlandinu í þágu íbúanna og áhersla lögð á verndun náttúru og lífríkis í þeim náttúruperlum sem finna má í bænum. (Undirstrikun mín)

Síðasta tilvitnunin er svo úr kafla um aðgerðir:

2.4.2 Verndun lífríkis og jarðmyndana í bæjarlandinu.

Markmið: Að vernda lífríki og jarðmyndanir í bæjarlandinu. 

Aðgerðir: Gerð verður áætlun um tilhögun verndunar á náttúrulegu lífríki og jarðmyndum í bæjarlandinu, t.d. á ísaldarklöppunum í Kotárborgum og víðar. 

Ábyrgð: Umhverfis og mannvirkjasvið / Skipulagssvið Verklok: 2020 

Að sjálfsögðu er margt fleira í skjalinu, það er rúmlega 10 síður og fjallar um margt sem ætlunin er að bæta og hlúa að. 

Atriðin sem ég pikkaði út í hér að framan valdi ég vegna þess sem mér finnst vera slæmt ósamræmi milli orða í stefnu og hins vegar aðgerða í raun hjá yfirvöldum sveitarfélagsins. Náttúruverndin hjá bæjaryfirvöldum nær einfaldlega ekki til fuglalífsins á Akureyri utan Grímseyjar og Hríseyjar nema að takmörkuðu leyti. Þegar Eyjarnar sameinuðust sveitarfélaginu fylgdu með reglurnar sem giltu fyrir í eyjunum sem leyfðu EKKI lausagöngu katta þar. Ég hef ekki frétt af neinum vandræðum með þær reglur hjá eyjabúunum. Grímseyingar ákváðu einfaldlega að kettir ættu ekki heima í eyjunni vegna fuglalífsins þar og Hríseyingar settu það ákvæði að kettir mættu ekki ganga lausir utanhúss af sömu ástæðu. Inná Akureyri eru yfirvöld með engar hömlur í raun gegn fuglaveiðum heimiliskatta. Mér vitanlega er tilmælum sem nefna þessi atriði í reglum sveitarfélagsins um kattahald ekkert fylgt eftir.

Til hvers er lausaganga katta leyfð? 

Varla getur það verið vegna sóttvarnasjónarmiða, það getur tæpast talið hollt að kettirnir séu að bera inná heimilin hræ af fuglum og spendýrum eða það sem þeir geta fengið á sig eða í úr misþrifalegum aðstæðum sem kisurnar komast í á ferðum sínum utanhúss.

Nágrannafriður? Athuga hvenær einhver missir þolinmæðina vegna katta sem skíta og krafsa á annara lóðum eða fara óboðnir inná önnur heimili en þeirra eigin.

Ég get heldur ekki séð að það samræmist velferð gæludýra að sleppa þeim á umferðargötur eða jafnvel algeran útigang.

Það er drjúgt mikið af lirfum sem þarf til að koma einum unga á legg. Er ætlunin að friða pöddur og skordýr í görðum með því að hrekja fuglana í burtu? 

„Jafnræðisregla stjórnsýslu“? Ég sat kynningu um reglur í opinberri stjórnsýslu sem bæjarlögmaður var með fyrir kjörna fulltrúa í upphafi kjörtímabilsins. Jafnræðisreglan og meðalhófið voru kynnt þar sem mikilvæg atriði og í því ljósi finnst mér ankannalegt að engin önnur gæludýr eða húsdýr mega ganga laus utan girðinga innan þéttbýlis í lögsagnarumdæmi Akureyrar, nema kettir.

Eða er hugmyndin sú að náttúrulegt fuglalíf skuli ekki þrífast á Akureyri? Burt með alla fuglsunga úr görðum, af grænum svæðum, frá andapollinn og drottningarbrautartjörninni þar sem ég hef séð heimiliskött úr nágrenninu taka andarungana sem álpuðust uppá tjarnarbakkann til að tína uppí sig æti af flötunum kringum tjörnina.

Svar óskast.

Ólafur Kjartansson.

Höf. er varamaður áheyrnarfulltrúa VG í umhverfis og framkvæmdaráði.

UMMÆLI