Frábær kvöldstund í VMA

Frábær kvöldstund í VMA

Elsa María Guðmundsdóttir skrifar

Leikfélag Verkmenntaskólans sýnir um þessar mundir gamanleikritið „Bót og betrun“ eftir breska höfundinn Michael Cooney, í þýðingu Harðar Sigurðssonar. Saga G. Jónsdóttir leikstýrir hópnum.

Skemmst er frá því að segja að þetta er afar vel gert og bráðskemmtilegt í meðförum Sögu og leikhópsins. Það hjálpast allt að, leikararnir fara hreinlega allir á kostum og tekst öllum með tölu að koma sínum karakterum til skila. Það er í reynd ekkert áhlaupaverk að skila hröðum farsa og flækjutexta eins vel og þau gera öll sem eitt.

Söguþráðurinn hverfist um hinn útsmogna Eric Swan, sem hefur fundið ótalmargar leiðir til að svindla á bótakerfi,  og afdrifaríka heimsókn frá eftirlitsmanni félagsmálastofnunar. Í kjölfarið hefst mikill darraðardans hinna ýmsu karaktera sem Eric hefur skáldað sér til fjáröflunar eftir að hann missir vinnuna.

Að öðrum ólöstuðum ber að nefna Örn Smára Jónsson, sem  fer á kostum í hlutverki Erics  og greinilegt að þar er á ferðinni efni í leikara. Alls koma fyrir sögu níu aðrar persónur í verkinu og   hópurinn á það sammerkt að skila texta af öryggi, leikgleði og frábærri persónusköpun.

Það er góður stígandi í verkinu, flækjustigið eykst og skiptingar og texti verða hraðari og meira gengur á. En það bara gengur allt upp og hláturinn ómaði í salnum margsinnis. Að lokum raknar svikavefur Erics upp og verkið fær skemmtilegan endi fyrir hinn atvinnulausa bótasvikara Eric.

Umgjörð sýningarinnar er virkilega góð, sviðsmynd falleg og einföld, búningar vel útfærðir og ljós þjónuðu sínum tilgangi. Greinilegt að heilmikil vinna hefur farið fram við undirbúning og umgjörð. Gaman líka að fá veglega sýningarskrá með skemmtilegum upplýsingum. Gryfja Verkmenntaskólans er kannski ekki skemmtilegasta sýningarýmið en það kom ekki að sök. Það er ekki sjálfgefið að í framhaldsskóla finnist leikfélag af þessu tagi fyrir nemendur, sköpunarkraftur, vilji og samstaða hópsins er áþreifanleg. Þvílík menntun sem á sér stað í því sköpunarferli sem leikhús er. Einnig er greinilegt að leikstjórn Sögu G. Jónsdóttur skilar frábærri vinnu hjá þessum vonandi, tilvonandi leikurum. Til hamingju Leikfélag VMA!

Með í för undirritaðrar var 16 ára unglingur, fólk á miðjum aldri og ellilífeyrisþegar. Öll nutu þau sýningarinnar, mikið hlegið og allir skemmtu sér vel. Sýningin höfðar þannig til breiðs hóps áhorfenda.

Mæli heilshugar með sýningunni „Bót og betrun“ hjá leikfélagi VMA, en næstu sýningar verða helgina 17.-18. febrúar og hægt að tryggja sér miða á tix.is.

Höfundur er með MA gráðu í menningarstjórnun


UMMÆLI