Fríar skólamáltíðir á Akureyri?

Fríar skólamáltíðir á Akureyri?

Rósa Njálsdóttir skrifar:

Þann 17. október 2016 varð Akureyri fyrsta sveitarfélagið á Íslandi til að samþykkja að innleiða barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Sá sáttmáli felur í sér m.a. að bæjarfélagið samþykki að nota sáttmálann sem viðmið í starfi sínu og að forsendur hans gangi sem rauður þráður í gegnum þjónustu þess

Á hvaða hátt getum við sem samfélag stutt við þennan sáttmála?  Jú með því að setja börnin og þarfir þeirra alltaf í forgang því öll getum við verið sammála um að börn eru einn þeirra hópa sem við viljum gera sem best við í bænum okkar.

Síðustu misseri hafa heyrst miklar áhyggjuraddir varðandi líðan fólks.  Kulnun, álag og streita virðast fara vaxandi og þó oftast sé nefnt heilbrigðisstarfsfólk, kennarar og annað starfsfólk skólanna, þá er þetta ekki eingöngu vandamál þessara starfsstétta heldur virðist sem álag og streita sé samfélagslegt vandamál, vandamál sem brýn þörf er á að greina betur og rýna í hvað sé til ráða.

Ein leið, af mörgum, til úrbóta er að létta undir með barnafjölskyldum, um það getum við flest verið sammála.

Í stefnuskrá Miðflokksins fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar var lagt til  að komið verði á fríum skólamáltíðum í grunnskólum bæjarins.  

Á fundi fræðsluráðs þann 24. september s.l. lagði fulltrúi Miðflokksins ásamt fulltrúum Sjálfstæðisflokks og VG  til að mjólkur- og ávaxtaáskriftir yrðu gjaldfrjálsar og til vara að fæði í grunnskólunum myndi ekki hækka um þau 3% sem meirihlutinn lagði til.  Þessum tillögum var hafnað. Það eru mikil vonbrigði og ljóst að okkar bíður mikil vinna við að sannfæra meirihlutann um ávinning þess að minnka kostnað foreldra við fæðiskaup barna þeirra.

Núverandi meirihluti bæjarstjórnar hefur marglýst því yfir undanfarnar vikur að bæjarsjóður standi vel. Því mætti ætla að einmitt nú væri lag til að, í það minnsta, kanna áhrif þessarar tillögu.  Óskandi væri að sú vinna færi í gang hið fyrsta, hvort sem um fyrrnefndar áskriftir væri að ræða eða eins og Miðflokkurinn stefnir að, að allar skólamáltíðir yrðu gjaldfrjálsar.

Ljóst er að loforð og góðar fyrirætlanir verða ekki afgreiddar á einum fundi, þetta er langhlaup og mun taka sinn tíma að komast í mark með áherslumálin.  En orð eru til alls fyrst og við höfum nú þegar hafið samtalið.  Ég mun halda áfram að tala fyrir gjaldfrjálsu fæði í grunnskólum. Allur stuðningur, góð ráð og samvinna er vel þegin og ég veit að sá tími mun koma að þetta fyrirkomulag verði að veruleika og þá munum við sjálfsagt undrast því í ósköpunum við vorum ekki búin að koma þessum sjálfsögðu málum fyrr í gegn.

Rósa Njálsdóttir er varabæjarfulltrúi Miðflokksins á Akureyri og fulltrúi í fræðsluráði.

UMMÆLI

Sambíó