Halloween Horror Show snýr aftur í Hof

Halloween Horror Show snýr aftur í Hof

Halloween Horror Show var haldið við góðar undirtektir í Hofi fyrir um ári síðan. Uppselt var á þrjár sýningar og var mikill áhugi á tónleikunum. Vegna eftirspurnar hefur verið ákveðið að halda sýninguna aftur í ár.

Halloween Horror Show er rokktónleikasýning en á tónleikunum í fyrra voru spiluð lög á borð við Zombie, Highway to hell, Thriller og Creep.

Á meðal þeirra sem koma fram á tónleikunum í ár eru Magni, Birgitta Haukdal, Greta Salóme, Dagur Sigurðsson, Stefán Jakobsson og Ólafur Egill ásamt bakröddum, dönsurum og hljómsveit.

Fyrirtækið Forte ehf sem er í eigu Gretu Salóme framleiðir sýninguna en Greta Salóme stendur að tónleikunum. Aðspurð segir Greta að sýningin í fyrra hafi heppnast einstaklega vel.

,,Ég vissi ekkert hvernig fólk myndi taka þessu. Mér fannst bara vanta eitthvað gott Halloween Show og ég var búin að ganga með þessa hugmynd í maganum í nokkur ár. Við lögðum strax upp með að ganga alla leið og gefa fólki meira en það bjóst við og það virkaði heldur betur. Þetta var bara alveg tryllt í fyrra og verður ekki síðra í ár. Þetta er klárlega sýning þar sem allir geta heyrt eitthvað sem þeir fíla og ég get ekki beðið eftir að halda þetta aftur.““

Sýningin verður í Hofi 3. nóvember næstkomandi. Á vef Menningarfélags Akureyrar er sýningunni lýst svona:

Halloween Horror Show sló rækilega í gegn í fyrra og seldist upp á mettíma. Hryllilegasta tónleikasýning sögunnar mætir nú í fullum skrúða í Hof 3.nóvember með einhverju af fremsta tónlistarfólki Íslands. Fram koma Magni, Birgitta Haukdal, Stebbi Jak, Greta Salóme, Dagur Sigurðsson, Ólafur Egill, ásamt karlakór, hljómsveit, bakröddum, dönsurum og leikurum.

Á tónleikunum verða leikin lög eins og Highway to Hell, Zombie, Creep, Superstition og fleira í nýjum útsetningum.

Tónleikasýning þar sem öllu er tjaldað til og enginn fer óskelkaður út. Á undan sýningunni verður klukkutíma fordrykkur í andyri Hofs með alls kyns uppákomum og gestir geta hitað upp fyrir tónleikana. Tónleikagestir eru hvattir til að mæta í búningum og vegleg verðlaun eru í boði fyrir besta búninginn.

Leikstjórn er í höndum Gretu Salóme og Ólafs Egils og um leikmynd og búninga sér Elma Bjarney Guðmundsdóttir.

Tónleikasýning sem á sér enga líka og enginn má missa af. Þorir þú?

UMMÆLI

Sambíó