Hátíðleg brautskráning í SÍMEY

Hátíðleg brautskráning í SÍMEY

Það var hátíð í bæ í SÍMEY í byrjun júní á brautskráningarhátíð SÍMEY – Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar. Vel var mætt til brautskráningarinnar og veðurguðirnir voru í hátíðarskapi. Þrjátíu og sjö nemendur úr sex námsleiðum útskrifuðust þann 1. júní.

Námsleiðirnir eru:

Help Start enskunám –  lögð er áhersla á lestur og ritun stuttra orða og að kynna fyrir nemendum mismuninn á sérhljóðum og samhljóðum. Unnið er með grunnorðaforða í ensku og undirstöðu í málfræði og setningamyndun. Að loknu fjögurra anna námi er gert ráð fyrir að þátttakendur séu vel í stakk búnir til að takast á við ensku á framhaldsskólastigi.

Menntastoðir – undirbúningsnám fyrir fyrir frumgreinadeildir Keilis, Bifrastar og Háskólans í Reykjavík og einnig má meta námið til eininga í bóklegum greinum iðnnáms.

Fræðsla í formi og lit – 432 klukkustunda nám á 3. þrepi hæfniramma um íslenska menntun. Námið er ætlað þeim sem hafa áhuga á skapandi starfi, hugmyndavinnu, myndgerð, framsetningu myndlistar og myndlistarsögu.

Leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú – námið er 66 eininga fyrir ófaglærða starfsmenn í leik- og grunnskólum. Áhersla námsins er á félags-, sál- og uppeldisgreinar sem og sérgreinar á sviði kennslufræði.

Félagsliðagátt / félagsliðabrú – 76 eininga, fjögurra anna nám þar sem áherslan er á félags-, sál- og uppeldisgreinar sem og sérgreinar á sviði fötlunar- og öldrunarþjónustu. 

Sölu-, markaðs- og rekstrarnám – hagnýtt og hnitmiðað nám fyrir þá sem vilja styrkja eigin rekstur eða þá sem hafa í hyggju að stofna eigið fyrirtæki. Lengd námsins er 288 klst. auk heimavinnu og í lok námsins er unnið lokaverkefni.

Ávarp útskriftarnema flutti Guðrún Lilja Curtis, sem lauk tveggja ára námi af stuðningsfulltrúabrú.

Valgeir Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, sagði í ávarpi sínu við brautskráninguna að það væri ætíð gleðiefni að ljúka áföngum í lífinu, nám væri einn af þeim. „Að ljúka námi, af hvaða  tagi sem er, er ætíð gleðiefni, þá er  tími til að staldra við, líta yfir farinn veg og ígrunda aðeins hverju við höfum bætt við okkur. Nám er ekki bara hið „bóklega“, það er líka sú staðreynd að hafa tekið skrefið, að hafa kynnst nýju fólki, farið út fyrir kassann, tekist á við nýjungar og nýja tækni. Að hafa mögulega mistekist, hafa haldið áfram og kannski lært af því. Fyrir allt þetta eruð þið lýsandi dæmi og það ber að óska ykkur til hamingju! Framhaldsfræðslan á að vera nákvæmlega vettvangur fyrir þetta, að veita fullorðnu fólki svigrúm til að finna sjálft sig í viðeigandi umhverfi þar sem það hefur ráðrúm til að tengja saman námsvettvang og sinn reynsluheim og þekkingu.“

Valgeir sagði að reikna mætti með að fjöldi þátttakenda í námi hjá SÍMEY á ári sé um þrjú þúsund, í námi, raunfærnimati og ráðgjöf. Samkvæmt þessu sé SÍMEY fjölmennasta menntastofnun í Eyjafirði og þriðja stærsta símenntunarmiðstöð landsins.

UMMÆLI

Sambíó