Horfa skipulagsyfirvöld framhjá því sem mestu máli skiptir?

Horfa skipulagsyfirvöld framhjá því sem mestu máli skiptir?

Hallgrímur Óskarsson, verkfræðingur, skrifar:

Eigum við að hafa börnin okkar á leikskóla þar sem næring í fæðu er 100% en hlýja og manngæska á lágu stigi? Nei, við erum flest sammála um að framkoma, hlýja og manngæska starfsfólks sé grunnatriði og að önnur atriði skipti flest minna máli.

Þetta hefur alveg farist fyrir í skipulagsmálum. Við deilum um nýtingarhlutföll, byggingarmagn, hæðir húsa og aðgang að sólargeislum en tölum aldrei um aðalþáttinn sem byggingar þurfa að uppfylla: Að fegra umhverfi sitt og ýta undir þann staðaranda sem er á hverjum stað fyrir sig. Að fólk sé ánægt með að fá nýja byggingu á nýjan stað. Að byggingar gleðji augun.

Bygginarlist hefur auðvitað verið allavega síðustu árhundruð en oft hefur verið lögð mikil áhersla á að byggja í þeim anda að verið sé að prýða bæi og borgir. Að fegra. Að gleðja augun. Að vekja upp löngun til að virða fyrir sér nýja byggingu og að sækja í það að vera í nánd við hana. Að vera sáttur við að hún sé komin til að vera. Að hún hjálpi hverfi að vaxa og dafna og ýti upp andanum um gott mannlíf í bæjum og borgum.

Mörg dæmi frá gamalli tíð eru til þegar metnaður var lagður í að byggja falleg hús – þá þótti það eðlilegur þáttur að taka með inn í ákvörðunarferlið. En þegar við hættum þessum áherslum erum við komin með byggingarmenningu þar sem hagnaðardrifnir aðilar fá stærri hluta af byggingar-kökunni og við hin sitjum uppi með hús sem eru hönnuð sem ódýrust (oft kassalaga „gámaarkitektúr“) en eru látin kosta það sama eins og ef mikil vinna væri lögð í að tryggja fegurð og smekkvísi bygginga. Þegar þetta er raunin, þá erum við komin á einhvern súran stað þar sem dómgreindin er búin að tapa fyrir Excel-skjalinu.

Sem betur fer er ljós í myrkri: Fleiri og fleiri byggingaaðilar (t.d. í Skandinavíu) hafa tekið upp gamalt handbragð og stíl og þróað nútímalegar aðferðir við að byggja aftur fagurt. Þetta verður aðeins gert með því að tryggja óhagnaðardrifna byggingaferli (lesist: hóflega hagnaðardrifið byggingarferli). Hér eru myndir frá sænsku hönnuðunum í Jupiter & Gran sem hafa þróað klassíska byggingarstílinn áfram og bætt hann með nútímalegum og skilvirkum vinnubrögðum. Svona er að eiga sér stað í Svíþjóð í dag varðandi nýbyggingar:

Fleiri myndir hér af FB-síðu Jupiter & Gran eru hér: https://www.facebook.com/pg/sundswalltrafastigheter/photos/

Meginmálið er þetta: Skipulagsyfirvöld verða að taka formfegurð og staðaranda inn í ákvarðanaferli um leyfi til nýbygginga. Það er ekki hægt að segja að fegurð bygginga sé smekkur sem sé breytilegur hjá hverjum og einum. Danski arkitíektinn Jan Gehl hefur haft frumkvæði að því að þróa aðferðir til að meta formfegurð og hvað almenningi þykir um nýjar bygginar sem eiga hugsanlega að rísa.

Á Akureyri er nú deilt um hvort kassalaga fjölbýlishús eigi að fá að rísa á lágreistri byggð Oddeyrarinnar. Til eru aðferðir til að leggja mat á hvað fólki finnst. Skipulagsyfirvöld gætu látið framkvæma kortlagningu á upplifun fólks gagnvart nýju húsunum og notað þann lykilþátt sem eitt atriðið í þeirri ákvörðun hvort viðkomandi eiga að rísa. Það væri gott innlegg í málið og svo sannarlega mikilvægur þáttur í að byggja upp og styðja við þann fallega og eftirsóknaverða staðaranda sem er á Oddeyrinni.

Víða í borgun er algjört bann við því að breyta ásýnd þess stíl sem markaður er í byggingum borga. Amsterdam og Boston hafa verið framarlega hvað þetta varðar. Þar er skýr krafa um útlit og að nýjar byggingar efli staðaranda. Ef Íslendingar bera gæfu til að opna á þessar áherslur munum við á ný ganga inn í blómaskeið nýrrar byggingalistar þar sem sátt almennings og skipulagsyfirvalda nær nýjum hæðum. Tækfærið er núna með verkefnum einsog nýju Oddeyrarhúsunum. Tækifærið fór forgörðum á Hafnartorgi í Reykjavík. Ákvörðunin og valið er í höndum skipulagsyfirvalda.

Greinin birtist upphaflega á bloggsíðu Hallgríms, Hallgrimur.is.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó