Hver er ég?

Halldóra Snorradóttir skrifar

Að vera unglingur er erfitt nú til dags og ábyggilega allt öðruvísi heldur en hér áður fyrr. Mikið áreiti er úr öllum áttum, síma, tölvu og öllum þessum samfélagsmiðlum. Við erum einhvern veginn ekki við sjálf lengur. Ég tel að unglingum í dag líði mun verr andlega útaf öllu þessu áreiti og staðalímyndum. Þá er bara eitt í stöðunni. Setja upp grímuna og þykjast vera einhver annar en þú ert í raun og veru.

Ég tala frá eigin reynslu þegar ég segi að gríman sem ég set upp á hverjum morgni sé orðin mjög þreytandi. Að þykjast alltaf vera þessi skemmtilega, hressa týpa sem hefur aðeins eitt hlutverk eða markmið til að ná fyrir lok dags, það er að láta fólki líka vel við sig. En þegar við komum heim, tökum grímuna af, hættum þessum trúðslátum, er okkar eigin persónuleiki ónýtur og vanlíðan brýst út. Við þekkjum okkur varla lengur. Við reynum og reynum en við erum bara þreytt og viljum leggjast upp í rúm og hvíla okkur fyrir næsta dag. Við þurfum að grípa til grímunnar til að komast í gegnum daginn.

Unglingum sem líður illa, eiga erfitt heimavið eða eru mjög óöruggir með sjálfsímynd sína þekkja best til grímunnar. Þeir þora ekki að sýna depurð sína svo þeir reyna að virðast hamingjusamir og fara í svokallað trúðshlutverk. Trúðshlutverkið gengur út á að láta aðra hlæja, líða vel, brosa og líka við þig. Trúðshlutverkið gengur bókstaflega út á að hugsa um alla nema sjálfan sig. Trúðshlutverk og gríma verða smám saman að einhverskonar rútínu áður en þú veist af. Það er mjög erfitt að sleppa þaðan út eftir langan tíma því fólk þekkir þig ekki öðruvísi.
Ég geri ráð fyrir því að flestir þekki þessi hlutverk að einhverju leyti, eigi sína grímu og sinn trúð. En ég spyr ykkur. Hver eruð þið í raun og veru? Hvert er ykkar nafn? Endilega spyrjið ykkur sjálf, HVER ER ÉG?

Halldóra Snorradóttir
framhaldsskólanemi

UMMÆLI