Jólin sigldu framhjá

Jólin sigldu framhjá

Fyrir jólin 1974 hafði blaðamaður Íslendings samband við tvo þekkta bæjarbúa á Akureyri og bað þá um að deila minningum frá eftirminnilegum æskujólum með lesendum blaðsins. Afraksturinn birtist í jólablaði sem kom út 19. desember þetta sama ár undir liðnum Jól sem aldrei gleymast. Minningar Fríðu Sæmundsdóttur kaupkonu (1908-1998), Jól allsnægtanna, má lesa á sagnalist.is. Grenndargralið rifjar upp frásögn Kristjáns frá Djúpalæk (1916-1994), Jólin sigldu framhjá.

Jólin sigldu framhjá

Það er aðfangadagur jóla. Lítill drengur er á rölti úti við, því veðrið er gott og hann er friðlaus af tilhlökkun. Kvöldið framundan býr yfir miklum fögnuði. Í huga hans vakir óljós minning frá síðustu jólum, helgibirta, óumræðanleg gleði. Einstök atriði man hann ekki. Hann starir upp í blábjartan himininn, leitar stjörnu, hugsar um komu jólanna. Og nú ber nokkuð sérstakt fyrir augu hans. Upp frá suðurfjöllunum siglir stórt, gullið skip vestur yfir himininn. Drengurinn starir bergnuminn á þennan glæsiknörr. Hvert getur skipið verið að fara? Hvað mun vera þar innanborðs? Þetta var ægifögur sýn og litbrigðin margvísleg. Eldskip, gullskip undir dökkbláum, flöktandi seglum. Hvað var það?

Í þessum svifum kemur Stóri-bróðir út á hlaðið. Drengurinn þýtur til hans og spyr flaumósa: — Hvaða skip er þarna uppi, hvert ætlar það, hvað flytur það? Stóri-bróðir gerir sig alvarlegan og svarar eins og ekkert væri hversdagslegra en svona skip: — Þetta eru jólin, ef ég þekki rétt. — En koma þau ekki hingað, fara þau framhjá? Drengurinn starir opineygur á hinn alvitra bróður sinn. — Ja, hver veit, þú verður að hafa gát á því hvert skipið fer. Svo er hann farinn.

Og drengurinn mænir á hinn glæsta knörr jólanna og þykir hann sigla með ólíkindum hratt. Hann tekur að óttast mjög að skip þetta muni ekki sveigja niður á haf myrkursins, sem nú lykur jörð, né taka höfn á hlaði þessa bæjar. Í huganum reynir hann að toga skipið niður til sín. Hann hrópar á það í örvænting, biður og skipar. En skip jólanna lætur ekki að orðum hans, það hraðar för sinni vestur, leysist upp og hverfur.

Með ósegjanlegan harm í huga gengur drengurinn inn í bæinn og segir snöktandi frá því ,að jólin séu farin hjá og aldrei verði gaman meir á þessum bæ. Huggunarorð móður hans hafa ekkert að segja í svo stórri sorg. Hann grætur þar til svefninn kemur og ber hann inn á þau lönd, þar sem aldrei þrýtur jól.

En aðfangadagskvöldið kom. Og þegar drengurinn vaknaði, viss um, að ekkert væri fram undan nema leiði, þá vaknaði ný von, er hann varð þess var, að allir voru í önnum við undirbúning hátíðarinnar. Kannski kæmu þau, þrátt fyrir allt, jólin hans?

Og þegar börnin voru afklædd hvert af öðru og böðuð í stórum þvottabala, síðan færð í hrein föt, ný eða viðgerð. Og þegar fullorðna fólkið klæddist einnig sparifötum og borðin svignuðu undan hátíðarmat, vék efi drengsins smátt og smátt. Og vonin varð að vissu, er hann stóð með litla, rauða jólakertið í höndunum og horfði á flöktandi Ijós þess. Öll börnin fengu kerti og spil. Og nú fékk drengurinn litli fyrsta jólakortið sitt. Það var frá Stóra-bróður, og á því var fögur kirkja, að baki blikaði stjörnuskari á bláum himni. Svona gat heimurinn verið góður.

En á bak kortsins var skrifað: — Jólin komu til þín, litli bróðir, þó skipið, sem ég sagði þér að flytti þau, færi hjá. En það var ekki neitt skip, aðeins ský, roðið geislum frá lágri sól.

Já, jólin komu. Undarlegur niður fyllti baðstofuna, allt var bjart og gott. Og þegar fegursta ævintýri allra ævintýra var Iesið, sagan um fjárhirðana, sem vöktu í haganum og birta drottins ljómaði kringum þá, og síðan frásagan um móðurina og barnið í fjárhúsinu, þá varð sál drengsins upp numin og hún sameinaðist fegurð allrar fegurðar.

Löngu síðar, þegar drengurinn var orðinn talandi, rímaði hann þessa minningu sína, svo hún mætti geymast sem dæmi um gæsku almættisins.

Jól

Ég man hve ég ungur til jólanna hlakkaði heitt

og hræddist um leið, að þau gleymdu að koma til mín.

Ég horfði eftir þeim út í sortann og sá ekki neitt

nema sveimandi skýin og Ijós, er í vestrinu dvín.

Einn aðfangadag, er ég reikaði rökkrinu í

og rýndi án afláts og hvíldar á himnanna tjöld.

Hann bróðir minn sýndi mér blóðrautt og geislandi ský:

— Þenna bát eiga jólin. Nú sigla þau framhjá í kvöld.

Þá bað ég til Guðs, að báturinn sneri nú við,

en bróðir minn hló, og skýið hélt áfram sinn veg.

Ég hrópaði á jólin og fann hvorki huggun né frið,

en felldi mín tár, þá var enginn svo hryggur sem ég.

Og skýið sveif burt, og það bliknaði, smækkaði ótt,

en barnaspil fékk ég og kerti, því nú voru jól.

Og ljósin mín brunnu svo björt þessa heilögu nótt.

Og baðstofukitruna lýsti mín hamingjusól.

Heimild:

Grenndargralið.

Kristján Einarsson. (1974, 19. desember). Jólin sigldu framhjá. Íslendingur, bls. 2.

Mynd af Kristjáni: Málverk frá 1966, málað af Kristjáni Friðrikssyni. http://listvinir.is/erindi-um-kristjan-fra-djupalaek/


UMMÆLI

Sambíó