Kaffi og list lokar – Leita að nýjum rekstraraðilum fyrir kaffihúsið í Listasafninu

Kaffi og list lokar – Leita að nýjum rekstraraðilum fyrir kaffihúsið í Listasafninu

Listasafnið á Akureyri leitar nú eftir aðila eða aðilum til að annast rekstur á kaffihúsinu í Listasafninu. Kaffihúsið opnaði sumarið 2018 en þá sáu hjónin Marta Rún Þórðardóttir og Ágúst Már Sigurðarsson um reksturinn.

Rúmu ári síðar tók Akureyrarbær við rekstri kaffihússins þar til í mars árið 2020 þegar Auður B. Ólafsdóttir tók við rekstrinum undir nafninu Kaffi og list. Nú er aftur leitað að nýjum rekstraraðilum.

Á Facebook-síðu Kaffi og list segir Auður Ólafsdóttir að ástæðan fyrir lokun á kaffihúsi Kaffi og list sé einföld: Covid-19.

„Aðeins nokkrum vikum eftir opnun, 1. mars 2020, var rekstrargrundvelli kaffihússins í raun kippt undan því. Sögu þessa heimsfaraldurs þekkjum við öll og fyrir utan lagalegar lokanir kaffihússins féllu einnig niður flest allir viðburðir sem Listasafnið hafði skipulagt árið 2020. Auk þess sem aðrir viðburðir s.s. málþing, ráðstefnur, afmæli, brúðkaup, fermingar o.s.frv. fóru ekki fram. Það var því synt á móti straumnum nánast frá upphafi. Ég hélt lengi í þá von að Kaffi & list gæti staðið þetta af sér, en því miður er ekki svo. Þetta eru erfið skref, en hjá þeim verður ekki komist. Ég vil þakka fyrir frábærar móttökur og óska næsta rekstraraðila, hver sem hann verður, velfarnaðar og minna á að hér er svo sannarlega hægt að gera góða hluti við eðlilegar aðstæður. Þrátt fyrir allt er ég þakklát fyrir tækifærið og viðtökurnar að ógleymdu því góða fólki sem ég hef kynnst á þessum tíma. Starfsfólki Listasafnsins vil ég þakka sérstaklega fyrir samstarfið og samvinnuna. Það vantaði ekki viljann til að halda áfram, en því miður verður að láta hér staðar numið,“ skrifar Auður.

„Góð aðstaða er fyrir kaffihús á jarðhæð Listasafnsins. Kaffihúsið er sjálfstæð eining á góðum stað í Listagilinu en jafnframt mikilvægur hluti af Listasafninu,“ segir á vef bæjarins í dag.

„Útboðsgögn verða afhent rafrænt frá þriðjudeginum 16. mars 2021 og verða aðgengileg á þessari slóð.
Tilboðum skal skila rafrænt  fyrir kl. 16:00 fimmtudaginn 8. apríl 2021. Nánari upplýsingar veitir Hlynur Hallsson safnstjóri Listasafnsins hlynurhallsson@listak.is og í síma 461 2619 og 659 4744.“

UMMÆLI