Krabbamein fer ekki í frí

Krabbamein fer ekki í frí

Kraftur stendur nú annað árið í röð fyrir vitundarvakningunni Krabbamein fer ekki í frí. Vitundarvakningin snýr að því að kynna fólki opnunartíma þjónustuaðila hjá þeim sem sinna krabbameinsgreindum og aðstandendum þar sem starfsemi og þjónusta getur oft verið minni yfir sumartímann. Þó að þjónustan sé takmarkaðri þá skiptir máli að fólk viti hvert það getur leitað læknishjálpar, ráðgjafar og stuðnings. Kraftur hefur því tekið saman opnunartíma hjá helstu þjónustuaðilum sem sinna þessum hópi. 

„Við gerum okkur fyllilega grein fyrir að allir þeir sem vinna við heilbrigðisþjónustu eru að gera sitt allra besta til að sinna öllum þeim sjúklingum sem koma til þeirra á þessum miklu álagstímum. Við höfum því tekið saman opnunartíma hjá helstu aðilum til að krabbameinsgreindir og aðstandendur viti hvert þeir geta leitað og hvenær. Við teljum að því upplýstara sem fólk er því minni óvissu stendur það frammi fyrir. Þá skorum við einnig á heilbrigðisyfirvöld að bæta aðgengi og þjónustu yfir sumartímann. Heilbrigðiskerfið okkar sýndi það og sannaði það á þessum Covid tímum að það getur svo sannarlega brugðist við þegar á reynir,“ segir Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts. 

Kraftur mun einnig standa fyrir skemmtilegum viðburðum þrjá miðvikudaga í sumar þ.e. 8. júlí, 22. júlí og 12 ágúst undir yfirskriftinni Krabbamein fer ekki í frí. Þessir viðburðir eru fyrir félagsmenn Krafts og er þar megin markmiðið að koma saman, njóta útivistar og líðandi stundar. Skrifstofa Krafts verður opin alla virka daga nema föstudaga í júlí þar sem hægt er að sækja stuðning og þjónustu. Einnig er opið í Ljósinu og Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins fyrir ráðgjöf, stuðning og endurhæfingu. Krabbameinsdeildirnar verða opnar í allt sumar en vegna sumarleyfa getur verið hægari svörun og þjónusta. 

Kraftur vonar að þessar upplýsingar hjálpi fólki hvert það getur leitað en upplýsingum með opnunartímunum verður dreift víðsvegar um Landspítalann og á öðrum stöðum. 

Viðburðirnir – Krabbamein fer ekki í frí – eru auglýstir á vefsíðu Krafts undir https://kraftur.org/krabbamein-fer-ekki-i-fri/ og á Facebook síðu félagsins https://www.facebook.com/kraftur.org/.

UMMÆLI