Kynslóðunum teflt saman í tónleikaröðinni Í HOFI & Heim

Kynslóðunum teflt saman í tónleikaröðinni Í HOFI & Heim

Menningarhúsið Hof býður menningarþyrstum Akureyringum og öðrum íbúum landsins upp á tónleikaröðina Í HOFI & Heim í desember og janúar.

Tónleikarnir fara fram á sviði Hamraborgar fyrir framan gesti í sal, fjöldinn takmarkast við gildandi sóttvarnarreglur hverju sinni, en þeim verður einnig streymt á mak.is svo áhorfendur geta haft það huggulegt og notið tónleikanna líka í sófanum heima.

Á þessari tónleikaröð verður kynslóðunum teflt saman. Ungt listafólk frá Akureyri kemur fram með sér reyndara listafólki svo úr verður nýr og forvitnilegur vinkill um leið og kunnuglegheitin eru til staðar. Listafólkið mun flytja bæði þekkt lög og sín eigin svo allir fái að njóta sín.

Fyrstu tónleikarnir fara fram fimmtudaginn 3. desember þegar Magni Ásgeirsson og Stefán Elí leiða saman hesta sína og renna í sín bestu lög auk þess sem einhver lög sem tengjast jólunum gætu lent á efnisskránni. Þann 10. desember er komið að söngkonunni Þórhildi Örvarsdóttur og píanóleikaranum unga Alexander Edelstein og munu þau færa okkur hugljúfa vetrarstemningu með tónlist úr ýmsum áttum. Hinn margreyndi Friðrik Ómar og ungstirnið Eik Haraldsdóttir koma saman á spennandi tónleikum 14. janúar en með þeim spilar gítarleikarinn Hallgrímur Ómarsson. Síðust en ekki síst er það sjálf stórstjarnan Andrea Gylfadóttir og Einar Óli sem kemur fram undir listamannsnafninu iLo en þeirra tónleikar fara fram fimmtudaginn 21. janúar. Allir tónleikarnir hefjast kl. 20.

Tónleikaröðin Í HOFI & Heim er styrkt af Menningarsjóði Akureyrarbæjar.

UMMÆLI


Goblin.is