Líðan barna og ungmenna í samkomubanni – samfélagslegt þátttökuverkefni

Líðan barna og ungmenna í samkomubanni – samfélagslegt þátttökuverkefni

Félagsmiðstöðvar Akureyrar og Ungmennahúsið í Rósenborg kanna hvaða áhrif Covid-19 faraldurinn og samkomubannið hafa á börn og ungmenni.

Það er forgangsmál að hlúa sérstaklega að börnum, enda stefnir Akureyrarbær hraðbyri að því að verða fyrsta Barnvæna sveitarfélagið á Íslandi samkvæmt UNICEF með innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Við núverandi aðstæður hefur skólahald hins vegar raskast og æfingar, tómstundastarf og hefðbundið félagslíf liggur niðri.

Þetta eru miklar áskoranir sem heimili eru misvel í stakk búin að takast á við. En hvaða tilfinningar upplifa börn og ungmenni á þessum óvenjulegu tímum? Með hjálp tækninnar getum við án snertingar eða hópamyndunar fengið upplýsingar um líðan barna á Akureyri. Þau skrifa hvert um sig eitt orð um líðan sína inn á öruggt vefsvæði og úr verður sameiginlegt þátttökuverk sem verður sýnilegt á stórum skjá í miðbæ Akureyrar.

Þannig geta allir komið sinni rödd á framfæri og til verður eins konar tilfinningasúpa. Þau orð sem eru rituð oftast birtast með stórum stöfum í forgrunni hinna og verður fróðlegt að sjá hvaða orð kemur oftast upp. Félak og Ungmennahúsið eiga í samvinnu við leik-, grunn- og framhaldsskóla bæjarins um þetta verkefni.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, kveikir á skjánum og opnar þannig verkefnið formlega á sumardaginn fyrsta, 23. apríl kl. 14, í Pennanum Eymundsson. Skjárinn verður þar í glugga og sýnilegur úr Göngugötunni til 4. maí.

Þetta verkefni er upplýsandi fyrir almenning og ekki síður stjórnvöld. Foreldrar eru sérstaklega hvattir til að gera sér ferð og skoða hvernig þetta umrót snertir börnin og hvaða tilfinningar bærast með þeim.

UMMÆLI

Sambíó