Listasafnið á Akureyri: Þrjár nýjar sýningar opnaðar um síðastliðna helgi

Listasafnið á Akureyri: Þrjár nýjar sýningar opnaðar um síðastliðna helgi

Listasafnið á Akureyri var opnað á nýjan leik um síðastliðna helgi eftir að hafa verið lokað í rúman mánuð vegna hertra sóttvarnarreglna. Þrjár nýjar sýningar voru opnaðar: Arna Valsdóttir – Staðreynd 6 – Samlag, Kristín K.Þ. Thoroddsen – KTh – Málverk og ljósmyndir og Úrval – annar hluti. Enginn aðgangseyrir verður innheimtur í desember og í gildi er tíu manna fjöldatakmörkun og tveggja metra reglan.

Arna Valsdóttir
Staðreynd 6 – Samlag

„Verkið vann ég sérstaklega fyrir sýninguna Staðreynd – Local Fact 2014, segir Arna.“ „Það er einfaldlega staðreynd að 13 ára var ég sumarstarfsmaður í ostagerð Mjólkursamlags KEA, sem nú hýsir Listasafnið á Akureyri. Síðar vann ég í nýja samlaginu, þegar starfsemin flutti, fyrst við að einangra mjólkurrör í kjallaranum og síðar í ostagerðinni. Í hvert sinn sem ég geng um Listasafnið finnst mér ég finna örlitla mysulykt í loftinu og þekki hljóðið í flísunum. Í verkinu tengi ég gamla samlagið við það nýja og flyt þau bæði inn í Listasafnið. Ég myndaði ferðalag mitt frá einum stað til annars og dró gamla tímann á eftir mér inn í þann nýja. Sem unglingi fannst mér gott að semja litlar laglínur í huganum við taktinn í vinnuvélunum og þær raula ég á ferðum mínum í verkinu.“


Kristín K. Þórðardóttir Thoroddsen
KTh – Málverk og ljósmyndir


Kristín Katrín Þórðardóttir Thoroddsen (1885-1959) ólst upp í Reykjavík og fékk þar tilsögn í tónlist og myndlist eins og títt var um dætur efri stéttar Reykvíkinga á þessum tíma. Hún hélt til Edinborgar 1904 í myndlistanám. Á fimmta áratug 20. aldar tók Kristín upp þráðinn að nýju er hún dvaldist í New York og stundaði þar myndlist hjá Art Student´s League.

Kristín bjó á Akureyri 1907-1932 ásamt manni sínum Steingrími Matthíassyni héraðslækni og börnum þeirra. Þau slitu samvistum 1932 og hélt Kristín ásamt yngstu dóttur sinni, sem þá var 11 ára, til Indlands til að starfa fyrir Alþjóðamiðstöð Guðspekihreyfingarinnar í höfuðstöðvum hennar í Adyar.

Kristín færði Akureyrarkirkju tvö málverk að gjöf árið 1942 sem síðan þá eiga sinn sess í skipi kirkjunnar. Bera verkin skýrt vitni um faglega skólun í myndlist. Hún átti um margt sérstæðan feril og var vel heima í framsæknum hugmyndum síns samtíma. Verk Kristínar hafa ekki áður verið sýnd opinberlega, fyrir utan málverkin tvö í kirkjunni. Á sýningunni má sjá valin málverk ásamt ljósmyndum frá ferð hennar til Austurlanda.

Sýningarstjóri: Þóra Sigurðardóttir, myndlistarmaður.

Úrval – annar hluti

Snemma á fjórða áratug 20. aldar hóf Akureyrarbær formlega að kaupa listaverk og voru fyrstu kaupin málverk eftir Freymóð Jóhannsson, sem hér er nú til sýnis. Í dag á bærinn um 700 listaverk af fjölbreyttu tagi. Sé miðað við önnur listasöfn er þessi tala ekki há, sem skýrist m.a. af því að ekki var um neina stofngjöf að ræða við stofnun safnsins árið 1993. Í gegnum árin hefur bæst við listaverkaeignina, þó með nokkuð óreglulegum hætti. Meirihluti verkanna er til sýnis almenningi í stofnunum bæjarins, í skólum, á dvalarheimilum, í Ráðhúsinu og á skrifstofum.

Sýningunni er ætlað að gefa yfirlit yfir listaverkaeign safnsins. Til að skapa jafnvægi og fjölbreytni voru atriði eins og aldur, aðferð og kyn höfð að leiðarljósi við val á verkum.

UMMÆLI