Lýsa yfir vonbrigðum með þjónustu Vegagerðarinnar við íbúa GrímseyjarMynd: María H. Tryggvadóttir

Lýsa yfir vonbrigðum með þjónustu Vegagerðarinnar við íbúa Grímseyjar

Bæjarráð Akureyrarbæjar lýsti yfir vonbrigðum með þjónustu Vegagerðarinnar við íbúa Grímseyjar á bæjarráðsfundi.

Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðar og Halldór Jörgensson forstöðumaður hjá Vegagerðinni mættu á fund bæjarráðs í gegnum fjarfundarbúnað og fóru yfir stöðu mála varðandi samgöngur til og frá Grímsey, í ljósi þess að ferjan Sæfari er enn í slipp.

María H. Tryggvadóttir verkefnastjóri ferðamála hjá Akureyrarbæ sat einnig fund bæjarráðs undir þessum lið í gegnum fjarfundarbúnað.

„Ítrekaðar seinkanir hafa orðið á viðgerð Grímseyjarferjunnar Sæfara og skort hefur á viðvarandi flug meðan á henni stendur. Þetta þýðir mjög skerta þjónustu við eyjarskeggja og bitnar harkalega á ferðaþjónustunni í eyjunni sem reiðir sig algjörlega á sumarmánuðina í rekstri. Bæjarráð skorar á Vegagerðina að bæta upplýsingagjöf til farþega, bæði á íslensku og ensku, fjölga flugferðum og tryggja hagstæð flugfargjöld meðan á viðgerðum á ferjunni stendur,“ segir í bókun bæjarráðs Akureyrar.


UMMÆLI

Sambíó