Prenthaus

Með hörkuna að vopni

Inga Dagný Eydal skrifar:

Undanfarna daga hef ég fylgst með íslenskum netheimum héðan frá Bandaríkjunum og eiginlega hefur mér rúmlega ofboðið dómharkan og grimmdin sem gýs upp í því sem eiga að vera umræður. Það sem sett er fram sem málefnaleg umræða um viðhorf og ímynd hjúkrunarfræðinga, er nú gert að nornaveiðum, húmorsleysi og viðkvæmni heillar stéttar sem ekki hvað síst hefur nú gert sig seka um árásir á ungan rithöfund sem varð á að nota starfsheiti sem ekki hefur verið til sem slíkt síðan hún fæddist. Gömul mynd sem óþekktur stuðningsmaður, líklega af eldri kynslóðinni, setti á netið í einhverri kjarabaráttu er gerð að tákni fyrir hræsni hjúkrunarfræðinga og notendur facebook stökkva á vitleysuvagninn hratt og örugglega og deila ákaft.

Líklega þýðir ekkert að benda á að umræðan og gagnrýnin snerist um ímynd kvennastéttar sem vill gjarna breyta hugmyndum næstu kynslóðar um störf sín og kunnáttu og finnst sárt að ungur kvenrithöfundur (ritkona) viti ekki betur en að setja fram gamla og úrelta lýsingu í bókinni sinni.  Þessi umræða átti að vera vitundarvakning um það að við þurfum mjög sárlega á því að halda að kenna börnunum okkar um lífið eins og það er. Þúsundir hjúkrunarfræðinga starfa ekki við hjúkrun og launin þeirra og ímynd stéttarinnar, eru ekki að hjálpa til.

Raunsæi í barnabókum er sjálfsagt þegar fjallað er um hluti eins og það þegar barn fer til læknis í nútímasamfélagi og svo er sjálfsagt að vinna líka rannsóknarvinnu þegar skrifað er um liðna tíma eins og þegar hjúkrunarkonur svifu um með kappa í þröngum hvítum kjól og nælonsokkum. Í dag er stéttin með að lágmarki fjögurra ára háskólanám, er fræðigrein og heitir hjúkrunarfræðingar samkvæmt lögum. Leikskólakennarar heita ekki fóstrur, þeir hafa fimm ára háskólanám og spila ekki bara á gítar og snýta börnum. Í slökkviliði eru bæði konur og karlar og vonandi kemur að því að þeim verður fundið starfsheiti sem hentar báðum kynjum. Vonandi getum við haldið áfram að gagnrýna allt sem betur má fara í okkar pínulitla samfélagi.

Að þessu öllu slepptu þá blöskar mér hvernig samfélagsmiðlar geta svipt almenningsálitinu til eins og hendi sé veifað. Hvernig lýsingarorðin verða sterkari og sterkari og allt í einu er hálf þjóðin farin að draga ályktanir sem virðast ekki byggjast ekki á rökum heldur einhverskonar hóptilfinningu.   Einn ágætur karlmaður hélt því fram á facebook að hjúkrunarfræðingar leggi rithöfundinn í einelti af því að hún sé söngkona. Hann færir ekki fyrir þessu rök en þau hljóta að vera einhversstaðar og byggjast á einhverju, -eða hvað?

Ég er alls ekki góð í að díla við dómhörku og óvægna umræðu,- verð alltaf hálf smeyk og döpur. Sjálfsagt ætti ég að vera meiri nagli en svo finnst mér eiginlega alveg nóg af þeim, þannig að ég ætla bara að halda áfram að vera hallærislega viðkvæm. Leiðbeinum endilega um það sem betur má fara, tökum ekki hvort annað af lífi í athugasemdum á netinu og í guðs bænum hjálpum börnunum okkar til að búa til betri framtíð með góðum, sönnum, skemmtilegum og ævintýralegum barnabókum!

Bestu kveðjur frá Vermont

UMMÆLI

Sambíó