Mikil eftirvænting vegna opnunar nýja Listasafnsins á Akureyri

Mikil eftirvænting vegna opnunar nýja Listasafnsins á Akureyri

Laugardaginn 25. ágúst verða dyr Listasafnsins á Akureyri opnaðar að nýju eftir stórfelldar endurbætur og stækkun á húsakynnum þess. Sýningarsalir voru áður fimm en eru nú tólf. Að auki verður nýtt kaffihús opnað á safninu og einnig safnabúð.

Framkvæmdir við endurbæturnar hafa staðið yfir í rúmt ár og safnið að mestu verið lokað gestum og gangandi á þeim tíma. Sýningahald hefur engu að síður verið stöðugt þar sem aðalsýningarýmið færðist yfir í Ketilhúsið. Með endurbótunum verða byggingarnar tvær sameinaðar með tengibyggingu. Það leynir sér ekki að á Akureyri ríkir mikil eftirvænting eftir að sjá nýtt listasafn og hafa þeir sem fengið hafa að kíkja inn fyrir dyrnar síðustu dagana keppst við að lýsa hrifningu sinni á samfélagsmiðlum og mannamótum. Kostnaður við endurbætur og stækkun Listasafnsins á Akureyri nemur um 700 milljónum króna.

Á laugardaginn verða opnaðar sex nýjar sýningar í safninu. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flytur ávarp, sömuleiðis Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Ásthildur Sturludóttir nýr bæjarstjóri á Akureyri og Hlynur Hallsson safnstjóri. Fjörmikil dagskrá með veitingum og tónlistaratriðum verður á opnunardaginn frá kl. 15-23. Listamennirnir sem opna sýningar í safninu eru Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, Sigurður Árni Sigurðsson, Hjördís Frímann og Magnús Helgason. Einnig verða opnaðar sýningar á verkum úr safneignum Listasafnsins á Akureyri og Listasafns ASÍ, og ljósmyndasýningin Frá Kaupfélagsgili til Listagils.

Um þessar mundir er einnig fagnað 25 ára afmæli safnsins með vikulangri opnunar- og afmælisdagskrá þar sem verður m.a. boðið upp á listamannaspjall, leiðsögn, jazztónleika og ljóðalestur.

Í tilefni af opnun nýrra salarkynna Listasafnsins á Akureyri og 25 ára afmælis þess verður enginn aðgangseyrir frá opnun til og með sunnudeginum 2. september. Eftir það verður aðgangseyrir kr. 1.500. Árskort safnsins verður til sölu í nýju safnabúðinni og kostar 2.500 kr.


UMMÆLI

Sambíó