Mögulegt brot á samkomutakmörkunum í Sundlaug Akureyrar

Mögulegt brot á samkomutakmörkunum í Sundlaug Akureyrar

Lögreglan á Akureyri stöðvaði sölu á miðum ofan í Sundlaug Akureyrar um sex leytið í dag vegna mögulegs brots á samkomutakmörkunum. Samkvæmt heimildum Kaffið.is var ekki verið að virða tveggja metra regluna í lauginni.

Eftir athugun lögreglu á svæðinu voru starfsmenn sundlaugarinnar beðnir um að hætta að selja ofan í laugina. Þeir sem voru þegar í lauginni fengu að vera áfram. Sundlaugin opnar aftur í fyrramálið.

Samkvæmt sektarfyrirmælum vegna Covid-19 er hægt að leggja sekt á forsvarsmenn starfsemi og skipuleggjendur samkoma ef brotið er gegn skyldu til að tryggja tveggja metra reglu á milli einstaklinga. Sektir vegna fyrsta brots eru á bilinu 100 þúsund til 500 þúsund krónur. Upphæðin fer eftir alvarleika brots.

Samkvæmt samkomutakmörkunum sem tóku gildi 13. janúar er Sundlauginni heimilt er að hafa opið fyrir allt að 50 prósent af hámarksfjölda gesta samkvæmt starfsleyfi og þarf að tryggja tveggja metra nálægðarmörkin á milli fólks sem er ekki í nánum tengslum.

UMMÆLI