Nýi snjótroðarinn í Kjarnaskógi hefur strax sannað gildi sitt Mynd: akureyri.is

Nýi snjótroðarinn í Kjarnaskógi hefur strax sannað gildi sitt 

Skógræktarfélag Eyfirðinga fékk í síðustu viku afhentan nýjan snjótroðara af gerðinni PistenBully. Troðarinn hefur þegar sannað gildi sitt við að troða gönguleiðir og slóða í Kjarnaskógi samkvæmt vef Akureyrarbæjar.

Árið 2021 var efnt til söfnunar fyrir nýja troðaranum sem áætlað var að kostaði um 35 milljónir króna. Er skemmst frá því að segja að í febrúar 2022 höfðu safnast ríflega 40 milljónir króna og þar af lagði Akureyrarbær 15 milljónir til kaupanna eftir að það var samþykkt í bæjarráði í október 2021.

Gamli snjótroðarinn sem Skógræktarfélag Eyfirðinga hafði yfir að ráða var kominn mjög til ára sinna og dugði illa til að sinna hlutverki sínu í Kjarnaskógi. Markmiðið með að kaupa nýjan troðara var að sinna betur gestum skógarins og því litríka og vaxandi útivistarlífi sem þar er stundað.

Þúsundir einstaklinga og fjöldi fyrirtækja, félaga og stofnana, lögðu söfnuninni lið. Eimskip rak síðan smiðshöggið á verkið með því að flytja troðarann frá Rotterdam og heim á hlað í Kjarnaskógi endurgjaldslaust.

Sambíó

UMMÆLI