Nýr þjónustukjarni fyrir fatlað fólk í Klettaborg

Nýr þjónustukjarni fyrir fatlað fólk í Klettaborg

Nýr þjónustukjarni fyrir fatlað fólk í Klettaborg á Akureyri var vígður í gær. Þjónustukjarninn verður á allra næstu dögum heimili sex einstaklinga sem þurfa aðstoð við daglegar athafnir og mun aðstaða íbúa og starfsfólks gjöbreytast til hins betra. Þetta kemur fram á vef bæjarins.

Það var með mikilli ánægju sem Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar, vígði þjónustukjarnann í gær og afhenti Karólínu Gunnarsdóttur, sviðsstjóra búsetusviðs, lyklana að húsinu. Íbúar flytja inn á allra næstu dögum.

„Þetta er sannarlega góður dagur og ánægjulegur. Ég vil óska íbúum, starfsfólki og okkur öllum til hamingju með glæsilegt heimili og langar jafnframt að þakka öllum þeim sem komu að verkinu,“ segir Halla Björk.

Byggingin stendur á nýrri lóð á horni Klettaborgar og Dalsbrautar og er hátt í 600 fermetrar að stærð. Sex íbúðir eru í húsinu, en einnig sameiginleg rými, garður sem nýtist til samveru og starfsmannaaðstaða.

Aðgengi og aðstaða er fyrsta flokks. Hver íbúð samanstendur af svefnherbergi, stofu og samliggjandi eldhúsi, baðherbergi og geymslu inn af forstofu. Sér verönd fylgir öllum íbúðum.

Á vef Akureyrarbæjar segir að tilkoma þjónustukjarnans sé liður í þeirri stefnu að leggja niður hefðbundin herbergjasambýli en veita þess í stað einstaklingsmiðaða þjónustu með áherslu á sjálfstæða búsetu. Hönnun húsnæðisins tekur mið af því og á að auka persónulegt svigrúm íbúa

„Aðstaða fyrir íbúa og starfsmenn mun gjörbreytast og er mikil eftirvænting hjá öllum með að flytja í nýtt húsnæði,“ segir Kristinn Már Torfason forstöðumaður þjónustukjarnans.

Á vef Akureyrarbæjar má finna myndir frá vígslunni 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó