Óveðrið raskar skólahaldi og hefur áhrif á prófatíð

Óveðrið raskar skólahaldi og hefur áhrif á prófatíð

Veðrið sem gengur nú yfir landið hefur raskað skólahaldi víða. Nokkrum prófum í Verkmenntaskólanum og Menntaskólanum á Akureyri hefur þegar verið frestað og einhverjir nemendur í Háskólanum á Akureyri gætu þurft að sætta sig við það að bíða fram í janúar til þess að taka sum lokapróf.

Þau próf sem áttu að fara fram í Verkmenntaskólanum eftir hádegi í dag hafa verið færð fram í næstu viku. Í Menntaskólanum á Akureyri hefur skólahald verið lagt niður í dag en þau próf sem áttu að fara fram á morgun hafa verið fræð fram á föstudag.

Nemendur í Háskólanum á Akureyri sem sjá ekki fram á að komast á próftökustað vegna ófærðar hafa verið beðnir um að tilkynna það til nemendaskrár HA á netfangið nemskra@unak.is. Þeir nemendur verða skráðir í próf sem haldin verða 3.-10. janúar 2020.

Skólahaldi í Þelamerkurskóla í Hörgárdal var aflýst í dag vegna veðurs og sama gildir um Grenivíkurskóla. Þá liggur skólahald niðri í dag og á morgun á Norðvesturlandi.

Á Amtsbókasafninu hefur íslenskukennslu dagsins verið aflýst vegna veðurs.

Hægt er að fylgjast með öllum nýjustu fréttum af óveðrinu á vef RÚV.

UMMÆLI