Pabbarokksveitin Röskun sendir frá sér nýtt lag

Pabbarokksveitin Röskun sendir frá sér nýtt lag

Norðlenska hljómsveitin Röskun sendi frá sér lagið Hamur 20. desember.

Þungarokk frá Akureyri hefur ekki verið mjög áberandi síðastliðin ár. Pabbarokksveitin Röskun hefur þó verið starfandi frá 2013 með óþarflega löngum hléum inn á milli að eigin sögn. Pabbarokk er það kallað þegar loðnir miðaldra kallar með bumbu koma saman til að spila þungarokk nokkrum sinnum í mánuði.

„Tilgangurinn er að hafa gaman og skapa eitthvað saman en ekki endilega að ná heimsfrægð. Það er svo alltaf bónus ef fólk er að fíla þetta,“ segja meðlimir sveitarinnar.

Lagið Hamur er fyrsta lagið sem sveitin sendir frá sér síðan breiðskífan „Á brúninni“ kom út árið 2017. Þeirri plötu var fylgt eftir með nokkrum tónleikum á Akureyri og Reykjavík en annars hefur sveitin látið lítið fyrir sér fara og einbeitt sér að nýju efni ásamt öðrum hliðarverkefnum meðlima.

Hamur er fyrsta lagið af nýrri breiðskífu sem sveitin áætlar að komi út í lok árs 2020. Áhersla verður lögð á að gera myndbönd við fleiri væntanleg lög og einnig að skipuleggja tónleika í kjölfarið.

Sjáðu myndbandið við lagið Hamur

UMMÆLI