Rafræn nýnemavika í HA – Metþátttaka í gegnum rafrænan fund

Rafræn nýnemavika í HA – Metþátttaka í gegnum rafrænan fund

Í morgun hófust rafrænir nýnemadagar í Háskólanum á Akureyri með metþátttöku nýnema á hug- og félagsvísindasviði. Ávarp rektors var í beinni útsendingu úr myndveri kennslumiðstöðvar HA og við tók kynningarmyndband þar sem nýnemar fengu gagnlegar upplýsingar um upphaf háskólanáms.

Að því loknu tóku við rafrænir fundir hverrar námsleiðar. „Við kunnum á rafræna kennslu sem er svo miklu meira en upptaka á námskeiðum og því má segja að ákvörðunin um að halda rafræna nýnemadaga hafi ekki verið flókin. Áskorunin felst í því að hvetja nýnema til virkrar þátttöku í háskólasamfélaginu en ég er þess fullviss að stúdentar okkar séu þeim kröfum vaxnir,“ segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri.

Öll aðstoð er veitt í gegnum netspjall og allt starfsfólk er boðið og búið að fylgja nýnemum fyrstu skrefin. Þar að auki fengu nýnemar senda til sín skóladagbók þar sem er að finna ýmis gagnleg ráð varðandi háskólanámið framundan.

„Það er svolítið skrýtið að halda nýnemadaga án sýnilegra nýnema á staðnum en við finnum vel fyrir þeim á rafrænu formi. Allir nýnemar hafa tækifæri á að taka þátt í ratleik og aðildarfélögin eru að bralla ýmislegt til að nemendur innan námsleiða kynnist betur. Til dæmis verður rafrænt bingó með veglegum vinningum og ýmsir aðrir rafrænir viðburðir“, segir Steinunn Alda Gunnarsdóttir, formaður Stúdentafélags Háskólans á Akureyri.

Nýnemadagar heilbrigðisvísindasviðs fara fram á miðvikudag og á fimmtudag er komið að viðskipta- og raunvísindasviði.

VAMOS AEY

UMMÆLI