Rafrænir nýnemadagar HA gengu vonum framar

Rafrænir nýnemadagar HA gengu vonum framar

Rafræn móttaka nýnema í grunnnámi við Háskólann á Akureyri gekk vonum framar í ár. Nýnemadagar Háskólans fóru eingöngu fram í gegnum vefinn í ár en þetta var í fyrsta skipti sem það er gert. Þetta kemur fram á vef HA en þar segir að í heildina hafi mátt merkja betri þátttöku en ella.

„Í upphafi dags mættu nýnemar í sameiginlega rafræna móttöku þar sem rektor tók á móti nýnemum á hverju fræðasviði í beinni útsendingu frá myndveri KHA. Næst á dagskrá var nýnemamyndband spilað þar sem öll helsta þjónusta stúdenta er kynnt þar á meðal þjónusta bókasafnsins, nemendaskrár og náms- og starfsráðgjafar svo fátt eitt sé nefnt. Þá tók við örkynning frá KHA þar sem grundvallaratriði í Uglu voru kynnt og loks mættu fræðasviðsforseti og skrifstofustjóri í myndverið. Eftir þessa sameiginlegu útsendingu tóku við minni fundir, sem ýmist var skipt niður eftir deildum og námsleiðum,“ segir á vef HA.

„Við erum auðvitað að sníða okkur stakk eftir vexti þessa dagana en í grunninn má segja að Háskólinn á Akureyri kunni sitthvað á fjarkynningar og -kennslu,“ segir Katrín Árnadóttir, forstöðumaður markaðs- og kynningarmála, sem heldur utan um framkvæmd nýnemadaga.

Stúdentafélag háskólans, ásamt aðildarfélögum, fundu rafrænar lausnir til að gefa nýnemum tækifæri til tengslamyndunar. Nýnemakvöldin fóru fram á Zoom þar sem meðal annars var spilað Kahoot og SHA stóð fyrir bingói þar sem veglegir vinningar voru í boði.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó