Samstarf í þágu ungs fólks

Frá undirritun samninganna í dag

Í dag var undirritaður samningur um þverfaglegt samstarf aðila á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu sem sinna málefnum ungs fólks á aldrinum 16-29 ára. Undirritunin fór fram í Ungmennahúsinu Rósenborg.

Verkefnið gengur undir heitinu Virkið og því er ætlað að vera vettvangur um samstarf þegar þessi hópur fólks þarf, stöðu sinnar vegna, á þjónustu að halda. Þjónustu sem snýr m.a. að atvinnuleit, skólagöngu, endurhæfingu eða annarri meðferð.

Með tilkomu samningsins verður þverfaglegt samstarf þeirra sem koma að málefnum aldurshópsins fest í sessi.

Eftirfarandi aðilar standa að samkomulaginu: Vinnumálastofnun Norðurlands eystra, Akureyrarbær (fjölskyldusvið og Ungmennahúsið – Rósenborg), Fjölsmiðjan á Akureyri, Sjúkrahúsið á Akureyri (geðdeild og BUG teymið), Heilbrigðisstofnun Norðurlands (Heilsugæslan), Virk, Menntaskólinn á Akureyri, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar, Grófin geðverndarmiðstöð og Starfsendurhæfing Norðurlands.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra segir að þar séu miklar væntingar gerðar til þessa samstarfs í þágu ungs fólks og lögreglan sé þakklát þeim sem hafa unnið að verkefninu.

Meginmarkmið samstarfsins er að:

  • stuðla að bættri almennri þjónustu fyrir ungt fólk á aldrinum 16–29 ára
  • stuðla að bættri sérhæfðri þjónustu fyrir fólk á aldrinum 16–29 ára
  • efla þverfaglegt samstarf fagaðila stofnananna til hagsbóta fyrir hópinn
Sambíó

UMMÆLI

Sambíó