Prenthaus

Samvinna eftir skilnað – barnanna vegna

Samvinna eftir skilnað – barnanna vegna

Velferðarsvið Akureyrarbæjar býður foreldrum upp á nýja þjónustu í formi námskeiðs undir yfirskriftinni Samvinna eftir skilnað – barnanna vegna. Námskeiðin eru fyrir alla foreldra sem eru að skilja, hafa skilið eða íhuga að skilja, en þar er fjallað ítarlega um áhrif skilnaðar á fjölskylduna. Þjónustan stendur öllum íbúum bæjarins til boða og er þeim að kostnaðarlausu. Það er ekki skilyrði að foreldrar nýti sér þessa þjónustu saman.

Fyrirhugað er að halda námskeið 12., 19.  og 25. október  frá kl. 16.30-19.30. Námskeiðin verða haldin í Glerárgötu 26 á 1. hæð. Umsjónarmenn námskeiðanna eru Halldóra Kristín Hauksdóttir, lögmaður velferðarsviðs, og Katrín Reimarsdóttir, félagsráðgjafi á velferðarsviði. Skráning fer fram með því að senda tölvupóst á netfangið katrinr@akureyri.is. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðunni www.samvinnaeftirskilnad.is.

Stuðst er við rannsóknir danskra félagsvísindamanna sem hafa þróað haldgott og árangursríkt úrræði til að bæta samskipti foreldra eftir skilnað. Ekki er um að ræða sáttamiðlun eða fjölskylduráðgjöf heldur aðgengilegar ráðleggingar um samskipti og samskiptahætti eftir skilnað, auk fræðslu um þau viðbrögð sem má vænta bæði hjá fullorðnum og börnum þeirra þegar skilnaður stendur yfir og eftir skilnað. Gengið er út frá því að það sé ekki skilnaðurinn sjálfur sem valdi mestum skaða, heldur það hvernig staðið er að honum gagnvart börnunum.

Grunnverkfærið er vefur með myndböndum og námskeiðum. Áhugasömum er bent á að heimsækja vefinn www.samvinnaeftirskilnad.is til frekari glöggvunar. Ef verkfærin á vefnum duga ekki til getur fólk sótt ráðgjöf til félagsráðgjafa og eftir atvikum lögfræðilega ráðgjöf auk námskeiðs sem í boði verður eftir þörfum.

UMMÆLI