Prenthaus

Stafræni Háskóladagurinn í HA: „Of gott tækifæri til að sleppa því“

Stafræni Háskóladagurinn í HA: „Of gott tækifæri til að sleppa því“

Stafræni Háskóladagurinn verður haldinn 27. febrúar næstkomandi. Þá munu nemendur og kennarar allra háskóla landsins svara spurningum í beinu streymi milli kl. 12 og 16. Háskólinn á Akureyri mun kynna allar deildir skólans og félagslífið.

Agnes Ögmundsdóttir, nemandi á öðru ári í Sálfræði við Háskólann á Akureyri, er formaður kynningarnefndar Háskólans og hefur í nógu að snúast í kringum Háskóladaginn. Hennar hlutverk er að finna fólk til að taka þátt í deginum innan hvers sviðs og reyna að vekja áhuga fólks á skólanum.

„Í raun og veru mun Háskólinn kynna öll sín störf innan hvers sviðs. Auk þess að kynna námið og hvernig því er háttað munu nemendur einnig tala um félagslífið og hvernig sé að vera í skólanum, nokkurs konar þeirra upplifun. Að auki verður þetta hugsað sem svolítið opinn tími þar sem fólk getur mætt og spurt spurninga sem þeim liggur á hjarta. Meira en velkomið að kíkja og spurja, engin spurning heimskuleg og nemendur svara eftir bestu getu,“ segir Agnes í spjalli við Kaffið.

Hún mælir með því að gestir á Háskóladeginum skoði sem mest.

„Innan hverrar deildar eru mjög skemmtilegir einstaklingar sem hafa gaman af spjalli. En mikilvægast er að fólk reyni að kynna sé fyrst og fremst það nám sem það hefur áhuga á og/eða þeim námsleiðum sem þeim þykir spennandi. Ef þú sérð fyrir þér að vinna við eitthvað ákveðið að mæta þá í kynningu á þeirri námsleið sem tengist því. Nú auðvitað ef einstaklingar eru ekki ákveðnir með hvað þeim langar að læra er um að gera að kynna sér sem flestar námsleiðir því kynningarnar gefa oft góða mynd af því hvar áhugasvið þitt liggur.“

Öðruvísi kringumstæður í ár

Hún segir að Háskóladagurinn sé mjög mikilvægur fyrir Háskólann á Akureyri og að hann sé skólans leið til að ná til landsmanna og sýna þeim hvað skólinn hefur upp á að bjóða fram yfir aðra skóla landsins. Það er því að nógu að huga þegar kemur að skipulagningu viðburðarins.

„Þetta er fyrst og fremst skipulag og það á „fast forward“. Eins og allir vita eru þetta öðruvísi tímar og hefur aldrei verið haldinn svona stafrænn viðburður. Það er því mikilvægt fyrir okkur að vera vel skipulögð og æfð. Það erfiðasta við að halda þetta á netinu er auðvitað að fá fólk til að mæta. Við höfum ekki hugmynd um hversu margir sækja viðburðinn rafrænt en vonum að sem flestir geri það. Í gegnum tíðina hefur þetta verið gífurlega vinsæll viðburður og nú er bara bíða og vona að það verði aftur þannig í ár, við öðruvísi kringumstæður,“ segir Agnes.

Sér ekki eftir því að hafa valið HA

Agnes er sjálf nemandi í Háskólanum á Akureyri en hún stundar Sálfræðinám við skólann. Hún segir að sín persónulega reynsla af skólanum hafi verið ekkert annað en frábær.

„Þarna er fólk sem virkilega vill kenna þér og mér finnst skólinn vera mjög persónulegur, sem hentar mér. Frelsið að geta lært þegar mér hentar og hvar sem er er mjög gott en krefst auðvitað mikils aga. Félagslífið er það skemmtilegasta að mínu mati, þarna kynnist maður vinum sem maður mun þekkja út lífið og SHA eða undirfélögin gera svo sannarlega sitt besta við að halda félagslífinu í toppmálum. Ég var sjálf ekki viss með hvar ég vildi læra í heiminum svo HA var frábær kostur fyrir mig. Tveimur árum seinna sé ég ekki eftir valinu og ég vona að Háskóladagurinn opni nýjar dyr fyrir alla sem huga að námi,“ segir Agnes.

Of gott tækifæri

Eins og áður segir verður Háskóladagurinn stafrænn í ár. Einstaklingum er frjálst að mæta hvenær sem er á milli klukkan 12 og 16, 27. febrúar.

„Þetta er eiginlega of gott tækifæri til að kynna sér skólann til að sleppa því. Það þarf ekki að tala á fundinum ef einhverjir kjósa það frekar. Það má spyrja í textaformi og nemendur svara eftir bestu getu. En auðvitað er líka hægt að tala saman, hvort sem það sé með myndavél eða ekki. Algjörlega undir þeim sem mæta komið og engin pressa,“ segir Agnes að lokum.

Smelltu hér til þess að kynna þér dagskránna frekar.

Hvað mun Háskólinn á Akureyri kynna á Háskóladeginum?

  • Viðskiptafræði
  • Sjávarútvegsfræði
  • Nútímafræði
  • Tölvunarfræði
  • Sálfræði 
  • Lögreglufræði
  • Lögfræði
  • Líftækni
  • Kennarafræði
  • Iðjuþjálfunarfræði 
  • Hjúkrunarfræði
  • Fjölmiðlafræði
  • Félagsvísindi 
  • Stúdentafélag Háskólans kynnir einnig sín störf.

Þessi grein er kostuð af Háskólanum á Akureyri. Smelltu hér til þess að kynna þér auglýsingatilboð á Kaffið.is.

UMMÆLI