Stefán Þór heldur síðasta Þriðjudagsfyrirlestur vetrarins

Stefán Þór heldur síðasta Þriðjudagsfyrirlestur vetrarins

Í dag, þriðjudaginn 21. mars, klukkan 17 til 17.40 heldur Stefán Þór Sæmundsson, rithöfundur og íslenskukennari, Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni Tungumál og tákn. Aðgangur er ókeypis. 

Tjáning mannsins hófst líklega með búkhljóðum og bendingum. Sömuleiðis hefur tegundin fljótlega byrjað að tjá sig gegnum myndlist eins og hinar merku hellaristur vitna um. Eftir að tungumálið tók að þróast og ritmálið hélt innreið sína varð orðsins list öldum saman uppspretta sagna, ljóða, leikrita, fræðimennsku og þar fram eftir götunum. Myndlistin fann líka sinn farveg og lengst af voru þetta að mestu aðskilin form, orð og myndir. 

Stefán Þór ætlar að fara á hundavaði yfir málsögu með alþýðlegum hætti og líta á samvinnu og samruna orða og mynda í tjáningu. Hann ætlar að velta því upp hvort tjáning okkar sé að hverfa aftur til upprunans og nefna og sýna nokkur dæmi. Erum við farin að tjá okkur meira með búkhljóðum, merkjum, myndum og lyndistáknum en lýsandi samtölum byggðum á gagnrýninni hugsun? 

Stefán Þór hefur alla tíð unnið mikið með tungumálið sem blaðamaður, pistlahöfundur, þýðandi, ljóðskáld, rithöfundur og íslenskukennari og honum er þróun íslenskunnar skiljanlega hugleikin. (Læk á það, þumalfingur upp og kannski broskall, jafnvel eitt hjarta). 

Þetta er síðasti Þriðjudagsfyrirlestur vetrarins, en aðrir fyrirlesarar voru Guðmundur Ármann Sigurjónsson, myndlistarmaður, Elfar Logi Hannesson, leikari, og Marsibil G. Kristjánsdóttir, myndlistarkona, Agnes Ársælsdóttir, myndlistarkona, Marta Nordal, leikhússtjóri, Andrea Weber, myndlistarkona, Einar Sigþórsson, arkitekt, og Hyo Jung Bea, myndlistarkona. Fyrirlestraröðin hefst á nýjan leik í október og er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Gilfélagsins, Menntaskólans á Akureyri og Myndlistarfélagsins á Akureyri.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó