Sú fyrsta á Norðurlandi með Covid-19 finnur enn fyrir veikindum þrátt fyrir neikvæð próf

Sú fyrsta á Norðurlandi með Covid-19 finnur enn fyrir veikindum þrátt fyrir neikvæð próf

Elísabet Ögn Jóhanssdóttir var fyrsta manneskjan á Norðurlandi til að greinast með Covid-19 15. mars síðastliðinn. Þrátt fyrir að nú séu nánast tveir mánuðir liðnir og að hún hafi tekið tvö neikvæð Covid-próf er hún enn veik. Elísabet lýsti reynslu sinni í pistli sem birtist á Stundinni í gær.

Þegar hún greindist með Covid-19 var hún búin að vera heima með hita í tvær vikur. Hún segir að eftir greininguna hafi tekið við súrrealískar vikur.

„Að vera einangraður heima hjá sér með einhverja bráðsmitandi framandi veiru er stórskrítin upplifun eins og mörg okkar höfum nú þegar reynt,“ skrifar hún.

Hún var þó nokkuð viss um að hún myndi ná góðum bata og eftir þrjár vikur af veikindum fór henni að líða betur en var þó með smávægileg andþyngsli og höfuðverk af og til. Hún hélt að þessu væri að ljúka og fór að vinna að heiman og útskrifaðist svo úr einangrun í lok mars. Þá óraði hana ekki fyrir því að veikindin væru rétt að byrja.

„Fimm dögum eftir útskrift kom þessi hræðilegi höfuðverkur á ný, þreytan var þrúgandi, úthaldið ekkert og hitinn kom aftur ásamt andþyngslum. Ég endaði með að fara í skoðun á Covid göngudeildinni á Akureyri, þar sem ég var lögð inn í sólarhring og gekkst undir ítarlegar rannsóknir. Engin skýring fannst og Covid sýnið var neikvætt. Ég var ekki lengur með veiruna en mér var samt ekki „batnað“.“

Nú þegar næstum tíu vikur eru síðan hún veiktist af Covid-19 liggur hún heima eftir enn eitt bakslagið. Elísabet segir að hún hafi talað við fleiri sem deila svipaðri reynslu af sjúkdómnum. Hún segir að óvissan sé mikil og að staðan sé ruglingsleg og mjög einmannaleg.

Pistil hennar Elísabetar á lesa í heild sinni á vef Stundarinnar með því að smella hér.

UMMÆLI