Þakklátur Akureyringum eftir vel heppnaðan hrekk

Þakklátur Akureyringum eftir vel heppnaðan hrekk

Karl Brynjólfsson sló í gegn um helgina þegar hann fyllti Akureyrarbæ af auglýsingum til þess að koma börnum sínum, sem voru í helgarferð í bænum, út. Hann hrósar Akureyringum í hástert fyrir aðstoðina við hrekkinn.

Karl keypti stórt auglýsingaskilti í miðbæ Akureyrar og auglýsti á auglýsingaskiltinu við Glerártorg að börn hans Edda Mjöll og Kristó Karls væru á lausu.

„Davíð sem er með Viðburðarstofu og þetta skilti við Glerártorg er snillingur og tók svo vel í þetta eftir að Karel í Netkerfi benti mér á hann. Fólkið á Akureyri er svo yndislegt og svo miklir snillingar því allir tóku svo vel í þetta að hjálpa mér með þetta.  Það er ekki sjálfgefið að miðaldra karlmaður eins og ég hringi símtal norður til að biðja um svona lagað,“ segir Karl í samtali við Kaffið.is

Sjá einnig: Keypti auglýsingar á Akureyri til að koma börnunum út

„Stelpa sem vinnur fyrir mig á Akureyri og heitir Aþena fór eftir sína dagvinnu og byrjaði að raða upp skiltum og svo var Pálina í Sæluhúsum hreint út sagt yndisleg og skilningsrík því í báðum húsum var búið að koma upp myndum og fleira.“

Karl segir að það sem hafi gerst í kjölfarið hafi komið honum mikið á óvart og að síminn hafi ekki stoppað hjá honum á laugardag.

„Ég skildi ekkert af hverju hvað var í gangi uppúr kl 16:00 en sá svo að allir miðlar voru farnir að fjalla um þetta og líka einhverjar síður sem ég er ekki einu sinni inná á Facebook.  Þetta er nú samt bara brot af því sem krakkarnir fengu í sinn síma skilst mér,“ segir Karl.

Hann segir að þetta hafi upphaflega ekkert átt að vera neitt annað en létt grín innan fjölskyldunnar en krakkarnir hafi oft strítt honum í gegnum tíðina.

„Mér fannst bara kominn tími á að gera eitthvað til að bæði koma þeim út og kaupa sér íbúð og þá sérstaklega í ljósi þess að það er ekkert í gangi hjá þeim í makaleit.  Mig langar í barnabörn og vera með skemmtileg fjölskylduboð, bið ekki um meira.“

Karli grunar að honum hafi tekist ætlunarverkið. „Það kom gríðarlega margt jákvætt út úr þessu og krakkarnir enduðu í partí langt fram undir morgun á sunnudag með alveg frábæru fólki að norðan.“

UMMÆLI