Umsóknir um skólavist við Háskólann á Akureyri yfir 2.000 þriðja árið í röð

Umsóknir um skólavist við Háskólann á Akureyri yfir 2.000 þriðja árið í röð

Þriðja árið í röð eru fleiri en 2000 umsóknir um nám við Háskólann á Akureyri. “Við erum einstaklega stolt af þessari miklu fjölgun nemenda síðustu árin sem er vitnisbuður um það góða starf sem á sér stað inná deildum og fræðasviðum skólans,” segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor skólans.

Lokað var fyrir umsóknargátt um skólavist við Háskólann á Akureyri á miðnætti í gær, 15. júní. Vegna ástandsins í samfélaginu var gert ráð fyrir auknum fjölda umsókna. Umsóknir fóru hins vegar hægt af stað. Það breyttist síðustu daga þegar umsóknir fóru að streyma inn og það kom síðan sprenging í umsóknum í gær. Þetta er þriðja árið í röð sem umsóknir fara yfir 2.000 sem sýnir og sannar hversu eftirsóttur skólinn og námið er. Árið 2018 fóru umsóknir í fyrsta sinn yfir 2000.  

Háskólinn á Akureyri hefur á síðustu árum þurft að takmarka aðgengi að háskólanum umfram það sem gert er í öðrum opinberum háskólum. Þrátt fyrir það er nemendafjöldi við skólann sá mesti frá upphafi. Eftir að lokað hefur verið fyrir umsóknargátt er ljóst að enn erfiðara verður að forgangsraða umsóknum fyrir komandi skólaár. Komi ekki til aukinna fjárveitinga til háskólans fyrir næsta skólaár mun háskólinn þurfa að hafna allt að helmingi þeirra umsókna sem bárust. ,,Aðgengi að háskólum verður að vera opið landsmönnum öllum óháð búsetu – og þar gegnir Háskólinn á Akureyri lykilhlutverki’’ sagði Eyjólfur Guðmundsson í brautskráningarávarpi sínu um liðna helgi.  

Alls bárust 2.033 umsóknir en heildarfjöldi umsókna í fyrra var 2.104*. Flestar umsóknir í ár eru í viðskiptafræði eða 309 talsins. Næstflestir sóttu um nám í hjúkrunarfræði eða 279. Þá hafa aldrei eins margir sótt um nám í sálfræði líkt og nú en alls bárust 262 umsóknir í sálfræði.  Mikið átak hefur verið í því að fjölga kennaranemum og fjölgun var í umsóknum í kennaradeild, bæði í grunn- og framhaldsnám. Sérstaklega er ánægjuleg aukning til B.Ed. prófs í kennarafræði en 62% aukning er meðal umsækjenda á leikskólakjörsviði og 28% aukning er á meðal umsækjenda á grunnskólakjörsviði.  

Þá er sérstaklega áhugaverð aukning á umsóknum í auðlindadeild og á heilbrigðisvísindasviði. Umsóknum í iðjuþjálfunarfræði fjölgar um 30% á milli ára og umsóknum í grunnnám í auðlindadeild fjölgar um 16%. Auk þess nýtur nýtt meistaranám í auðlindadeild vinsælda. Þá er einnig að nefna aukningu í framhaldsnám á heilbrigðisvísindasviði. Nám í lögreglufræðum nýtur áfram mikilla vinsælda við skólann. Alls bárust 243 umsóknir í nám í lögreglufræði fyrir verðandi lögreglumenn og er gert ráð fyrir því að 40 nemendur muni hefja starfsnám í janúar 2021.  

Nú hefst mikil vinna við það að forgangsraða umsóknum vegna hertra inntökuskilyrða og verður öllum umsækjendum svarað í lok júní.  

,,Umsóknarfjöldi síðustu þriggja ára hefur gert það að verkum að skólinn er nú með mesta fjölda nemenda frá upphafi.  Það verður mikilvægt samtal við stjórnvöld næstu tvær vikur með hvaða hætti hægt verður að tryggja nemendum aðgengi að háskólanámi án þess að ganga frekar á mannauð skólans svo unnt sé að standa við gæði námsins á öllum stigum. Ljóst er að til þess að það sé unnt er þörf á verulegu fjármagni. Það er von okkar að stjórnvöld muni tryggja skólanum það viðbótarfjármagn sem til þarf.” segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri. 

*Einungis er innritað í meistaranám í heimskautarétti annað hvert ár. Þar bárust 84 umsóknir fyrir haustið 2019.

Sambíó

UMMÆLI