Ungir Akureyringar ræða framtíð og stöðu ungmenna í stóru Evrópuverkefni

Ungir Akureyringar ræða framtíð og stöðu ungmenna í stóru Evrópuverkefni

Tveir ungir Akureyringar eru nú staddir í Tyrklandi þar sem þeir taka þátt í stóru Evrópuverkefni sem snýst um stöðu, hagi og framtíð ungs fólks.

Verkefnið snýst um að vekja athygli á aðstæðum og framtíð ungs fólks í Evrópu. 36 ungmenni frá Íslandi, Tyrklandi, Spáni og Portúgal eru samankomin og bera saman bækur sínar og ræða um helstu áskoranir og tækifæri.

Emil Þór Arnarsson og Wiktor Tomasz Wójtowicz Tómasson eru fulltrúar Akureyrar. Þeir hafa nýtt þjónustu Ungmenna-Hússins í Rósenborg þar sem áhersla er lögð á að koma til móts við ungt fólk sem á það til að falla á milli kerfa, finnur sig til að mynda ekki í skóla eða vinnu.

Í Ungmenna-Húsinu eru virkninámskeið fyrir þau sem það þurfa og vilja. Aðstaðan í Ungmenna-Húsinu er til fyrirmyndar því þar er líka æfingahúsnæði fyrir hljómsveitir, upptökuhljóðver, viðburðasalur, listaraými og fleira. Starfsfólk er til staðar frá morgni til kvölds á virkum dögum og er starfið afar fjölbreytt.

Viðburðurinn sem er haldinn í Tyrklandi um þessar mundir er hluti af Erasmus verkefninu „New Era for Stronger Youth“. Víða um Evrópu er lögð mikil áhersla á að draga úr atvinnuleysi ungmenna sem hefur verið mikið vandamál eftir efnahagshrunið. Innan Evrópusambandsins voru yfir 4,2 milljónir ungmenna atvinnulaus árið 2016. Talin er þörf á að kortleggja enn frekar efnahagsleg og samfélagsleg áhrif þessa og virkja og styrkja ungt fólk. Leiðtogahæfni, áætlanagerð, gagnrýnin hugsun og frumkvæði er meðal þess sem þátttakendur fá að spreyta sig á í verkefninu.

Þetta er í senn áhugavert og krefjandi verkefni og eru aðstandendur Ungmenna-Hússins stoltir af þessum flottu fulltrúum Akureyrar.


UMMÆLI

Sambíó