Akureyri-Færeyjar

Upptök eldsins við Glerárskóla í rannsóknMynd: Kaffid.is/Jónatan

Upptök eldsins við Glerárskóla í rannsókn

Upptök eldsins sem kom upp í Glerárskóla í síðustu viku er til rannsóknar hjá lögreglu en rannsóknin er enn á frumstigi. Samkvæmt frétt Rúv um málið er verið að kanna hvort eigi að fá dómskvaddan matsmann til að leggja mat á hvort almannahætta hafi skapast þegar þrír drengir sprengdu flugelda við skólann. Drengirnir, sem fæddir eru árin 2004 og 2005 gáfu sig fram til lögreglu skömmu eftir að eldurinn kom upp og viðurkenndu að hafa verið að sprengja flugelda við skólann skömmu áður en eldurinn braust út.

Ekki liggur fyrir hvort um óviljaverk eða ásetning var að ræða

Bergur Jónsson, sem fer með rannsókn málsins, segir í samtali við Rúv að þrátt fyrir að piltarnir hafi viðurkennt að hafa verið með eld í kringum skólann þurfi að rannsaka málið betur. „Leggja þarf mat á það hversu mikið tjónið er og eins þarf að taka ákvörðun um hvort dómkveðja þurfi matsmenn til að leggja mat á hvort almannahætta skapaðist af þessari háttsemi. Því má segja að málið sé enn á frumstigi,“ segir Bergur. Hann segir að ekki liggi ljóst fyrir hvort að um óviljaverk eða ásetning hafi verið að ræða, slíkt verði skoðað. „Það er alltaf hluti rannsóknar lögreglu að kanna huglæga afstöðu til verknaðar sem til rannsóknar er og þá eins hvort sú huglæga afstaða hafi einnig náð til afleiðinganna.“

UMMÆLI