NTC

Vesturbrú tekin í notkun

Vesturbrú tekin í notkun

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra vígði í gær nýja göngu- hjóla og reiðbrú yfir Eyjafjarðará. Um leið var brúnni gefið nafnið Vesturbrú að lokinni nafnasamkeppni. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Akureyrarbæjar um málið.

Þar segir að brúin sé mikil samgöngubót fyrir útivistarfólk og að hún nýtist jafnt gangandi, ríðandi, hlaupandi og hjólandi vegfarendum. Hún leysir af hólmi gamla brú sem færa þurfti sunnar vegna uppsetningar á aðflugsbúnaði við Akureyrarflugvöll.

Framkvæmdir hófust síðla árs 2019. Í þeim fólst einkum stígagerð að brúarstæði og sjálf brúarsmíðin. Niðurrekstur staura undir brúarstöppla hófst í mars síðastliðnum og lauk steypuvinnu og öllum frágangi í júní. Samhliða smíðinni hófust framkvæmdir við Hólasandslínu 3 með því að leggja ídráttarrör fyrir jarðstreng meðfram brúnni.

„Brúin er glæsilegt mannvirki. Hún er 60 metra löng stálbrú með þriggja metra breiðu timburgólfi. Heildarlengd nýrra malarstíga sitt hvoru megin við brúarstæði eru um 600 metrar,“ segir á vef bæjarins.

Verkefnið var unnið í samstarfi Akureyrarbæjar, Vegagerðarinnar og Landsnets.

Sambíó

UMMÆLI