Ágreiningur um rekstur öldrunarheimila á Akureyri heldur áfram

Ágreiningur um rekstur öldrunarheimila á Akureyri heldur áfram

Í upphafi maí mánaðar var greint frá því að Akureyrarbær myndi ekki framlengja samning um rekstur öldrunarheimila sem fellur um gildi um næstu áramót. Ríkið krefst þess þó af bænum að hann ábyrgist rekstur hjúkrunarheimilis í Lögmannshlíð sem stendur til að byggja. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Sjá einnig: Akureyrarbær framlengir ekki samning um rekstur öldrunarheimila

Í Fréttablaðinu segir að bæjarstjórn Akureyrar standi enn fast á kröfu sinni um að ríkið beri ábyrgð á rekstrinum, sem og öðrum hjúkrunarheimilum, sem bærinn hyggst hætta að koma að.

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Akureyrar segir í samtali við Fréttablaðið að ríkið setji þessi skilyrði í alla nýja samninga. Í yfirlýsingu bæjarráðs er ríkið því sagt mismuna íbúum, því ef sveitarfélög fallist ekki á að taka á sig reksturinn falli þjónustan niður.

Mikill hallarekstur hefur verið á hjúkrunarheimilum bæjarins, þrátt fyrir að ekki sé verið að veita þjónustu umfram þjónustulýsingu. Nægt fjármagn berist ekki frá ríkinu, sem lagalega beri ábyrgð á rekstrinum.

Ásthildur segir að það sé enn samtal í gangi á milli ráðuneytisins, framkvæmdasýslunnar og Akureyrarbæjar um þetta mál. Hún telur að það sé best að þetta mál leysist fljótlega.

„Þetta er okkar afstaða og við erum stíf á henni,“ segir Ásthildur í Fréttablaðinu. „Ég er alveg sannfærð um að ráðherra vilji leysa þessi mál.“

Sambíó

UMMÆLI