Fylltist sköpunarkrafti á Akureyri og gefur nú út leiðarvísi fyrir samkynhneigða að sundlaugum á Íslandi

Fylltist sköpunarkrafti á Akureyri og gefur nú út leiðarvísi fyrir samkynhneigða að sundlaugum á Íslandi

Liam Campbell, ritstjóri tímaritsins Elska hefur gefið út ferðahandbókina Fifteen Icelandic Swimming Pool. Í bókinni segir höfundur frá ferð sinni til Íslands og ferðum sínum í sundlaugar landsins.

Í bókinni sem gengur einnig undir nafninu A Gay Guide to Swimming in Iceland er hver kafli tileinkaður einni sundlaug. Höfundur lýsir sundlaugunum á Íslandi sem stofnunum með mikið menningarlegt gildi, sem mætti líkja við bari á Englandi eða verslunarmiðstöðvar í Bandaríkjunum.

„En í staðinn fyrir áfengis- eða neysludýrkunina sem fylgir þessum stöðum þá eru sundlaugarnar heilnæmar,“ segir Liam.

Hann heimsótti nokkrar sundlaugar á Norðurlandi, þar á meðal Sundlaug Akureyrar, Þelamörk og sundlaugarnar á Dalvík og Ólafsfirði.

Sjá einnig: Elska Magazine heimsækir Akureyri

„Ég kom til Íslands til að losa mig við stress og ég gerði bara ráð fyrir því að það besta fyrir mig væri að eyða tíma mínum í einsemd í litli bæjarfélagi. Ég byrjaði því á því að fara á Snæfellsnes – sem var mjög ljúft en það kom í ljós að það var of hljóðlátt fyrir mann eins og mig sem hefur eytt mestum hluta lífs síns í London.“

Hann ákvað því að halda til Akureyrar þar sem honum leið strax meira eins og heima hjá sér.

„Minn fyrsta morgun á Akureyri vaknaði ég og labbaði í sundlaugina þar sem ég synti og fór í heita pottinn. Ég fór svo á Bláu Könnuna til að slappa af og lesa. Þetta var fullkominn dagur. Ég áttaði mig á því að mig langaði að vinna og sköpunarkrafturinn helltist yfir mig. Þarna kom hugmyndin um að heimsækja eins margar sundlaugar og ég gæti á tveggja vikna ferð minni um Ísland og skrifa um reynslu mína.“

Liam hófst því handa við að skrifa um þær sundlaugar sem hann hafði þegar heimsótt, á Stykkishólmi, Hofsósi, Ólafsfirði og Akureyri.

„Stykkishólmur er gott dæmi um hina klassísku íslensku sundlaug, en konan í afgreiðslunni skammaði mig fyrir að taka mynd, svo ég er svolítið sár yfir því. Sundlaugin á Hofsósi var mögnuð, mögulega best staðsetta sundlaugin af öllum. Sundlaugin á Ólafsfirði var ótrúleg, mín uppáhalds hingað til, mjög sjarmerandi. Og svo Sundlaug Akureyrar, best útbúnasta sundlaugin. Gaurinn í afgreiðslunni var einnig mjög kurteis og góður við mig þegar ég talaði bjagaða íslensku.“

Liam heimsótti þegar uppi var staðið 15 sundlaugar á ferð sinni og skrifaði um þær allar í bókinni. Bókin er 148 blaðsíður og er gefin út af Elska Magazine. Hægt er að nálgast eintak á vef Elska.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó