beint flug til Færeyja

,,Bæði Þór og KA hafa skellt hurðum öll þessi ár, oftast á stelpurnar sjálfar“

Ákvörðun Knattspyrnufélags Akureyrar að slíta samstarfi Þórs og KA í meistara- og öðrum flokki kvenna hefur verið mikið í umræðunni síðustu daga. Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, sagði í viðtali í útvarpsþætti Fótbolta.net á laugardag að KA hefði, á síðustu árum, boðið Þór/KA háar upphæðir til að styðja við afreksstefnu liðsins. Þórsarar hafi hins vegar skellt hurðum í andlit þeirra og sagt reksturinn ekki koma þeim við.


Geir starfaði fyrir kvennaráð Þórs/KA í 7 ár

Geir Hólmarsson, framhaldsskólakennari, starfaði fyrir kvennaráð Þórs/KA á sínum tíma og birti áhugaverðar hugleiðingar um málið á Facebook.

Ég var í kvennaráði fyrstu 7 árin. Ég man eftir þeim tíma er knattspyrnustjórn Þórs vildi ekki vita af Þór/KA. Ég man eftir ummælum frá stjórnarmeðlinum um að það ætti ekki að leggja meiri pening í stelpurnar en sem næmi styrk Akureyrarbæjar, þær væru ekki meira virði. Að fjáröflun þeirra tækju peninga frá strákunum. Ég man eftir því að þeir harðneituðu að taka upp hlutlausa búninga. Þórsarar eru engir englar í þessu máli. Ég man líka eftir kuldalegu viðhorfi KA manna. Man eftir foreldrafundi sem við boðuðum hjá KA foreldrum, hringdum í hvert og eitt þeirra fundardaginn. Einn pabbi mætti á fundinn. KA vildi ekki koma nálægt rekstrinum en höfðu samt uppi kröfur. KA vildi ekkert vita eða koma nálægt rekstrinum og klárlega ekki leggja kvennaráði Þór/KA lið. Kvennaráðið voru aðstandendur iðkenda í liðinu. KA vildi að stelpurnar æfðu á KA svæðinu en úthlutuðu okkur óásættanlegum tímum og hornsvæðum. Það var ekki hægt að samþykkja það. Þeir vildu að þær spiluðu í KA búningum en voru ekki tilbúnir að hjálpa til með því að leggja þá til. Ekki ætluðu KA menn að leggja til krónu en fengust til að gefa eftir sjoppuna á Akureyrarvelli vegna þess að annars hefði þurft að skipta um allt settið í skúrnum milli leikja. Það var ekki vinnandi vegur. Það var alltaf miklu betri sala á leikjum Þórs en KA einhverra hluta vegna.

Stelpurnar hafa alltaf hrakist á milli þessa haturs sem ríkir milli félagana. Ég er ekki saklaus af því að viðhalda því á sínum tíma. Og það má halda því fram að þær hafi náð þessum árangri þrátt fyrir Þór og KA. Það var ekki fyrr en eftir að það fór að ganga vel að knattspyrnustjórn Þórs tók við sér og fór að leggja þeim lið. Mér skilst að í dag sé allt annað og betra ástand þar á bæ.

Þær hafa barist gegn miklum mótbyr, í gegnum hatursumræðu og þau í kvennaráði sem hafa staðið vaktina undir forystu Nóa eiga heiður skilinn fyrir baráttuna. En þetta er líka skiljanlegt. Þær voru að brjótast til verka á nýjum vettvangi. Akureyringar voru ekki vanir því að líta svo á að stelpur spiluðu alvöru fótbolta. Allir þurftu að venjast tilhugsuninni. Eðlilega var uppi tortryggni. En þær spila alvöru fótbolta og eru ofsalega góðar í því. Stelpurnar í Þór og KA vilja spila undir sameiginlegu merki. Það eru ekki þær sem vilja kljúfa það góða sem þær hafa skapað. Þetta gengur frábærlega. En þetta er erfiður rekstur, þær vinna botnlausa sjálfboðavinnu til að fjármagna boltann. Eru út um allan bæ og skilja milljónum í tekjur fyrir Þór/KA. Ekkert annað félag í efstu deild kvenna og karla leggja jafn mikið á sig og þær hafa gert í gegnum árin. Og svo halda menn að þeir geti bara lagt þetta niður. Þær eiga Þór/KA. Þær eru virtar í íslenska fótboltaheiminum. Þær eru miklar fyrirmyndir. Ég skil ekki hvert vandamálið er sem KA er að leysa með þessari gjörð? Og hvert erum við eiginlega komin ef það er svo að framkvæmdastjóri KA lýgur til um ástæðurnar í fjölmiðlum. Hann kvartar yfir því að hurðum hafi verið skellt. Það er ekkert nýtt. Bæði Þór og KA hafa skellt hurðum öll þessi ár, oftast á stelpurnar sjálfar. Eru þær að væla yfir því, nei. Þær svara hurðaskellunum á fótboltavellinum.

Látum það liðna liggja í fortíðinni. Það hefur gengið á ýmsu og það þjónar ekki framtíðinni að dvelja þar. Aðalmálið er að það er mikill bæjarsómi af starfi stelpnanna í Þór/KA. Styrkjum það frekar. Nýtum reynsluna þaðan og setjum aukinn kraft í umgjörð KA/Þór stelpnanna í handboltanum. Hugsum þetta upp á nýtt og gerum betur. Ég skora á KA að gefa sér tíma og endurskoða þessa ákvörðun sína.

Sjá einnig

Samstarfi Þórs og KA í kvennaboltanum slitið

Fyrirliði Þórs/KA gáttuð, sár og bandbrjáluð

Eiríkur: Iðkendur óskuðu eftir samstarfsslitum

Raunir íþróttaáhugamanns á Akureyri

Fulltrúar Þórs og KA funduðu með ÍBA


Sambíó

UMMÆLI