Akureyri-Færeyjar

Indiana Jones Akureyrar þefar uppi sögur af áhugaverðu fólki og atburðum úr fortíðinni

Indiana Jones Akureyrar þefar uppi sögur af áhugaverðu fólki og atburðum úr fortíðinni

Brynjar Karl Óttarsson er grunn- og framhaldsskólakennari á Akureyri sem hefur mikinn áhuga á sögugrúski. Til marks um það eru tvær stofnanir sem hann á og rekur, Grenndargralið og Sagnalist – skráning og miðlun. Við heyrðum í Brynjari sem sagði okkur frá starfseminni.

„Áhugamálin eru mörg en sögugrúskið á hug minn allan þessa stundina. Ég hef gaman af því að grafa upp gleymdar gersemar í sögunni og matreiða á áhugaverðan hátt ofan í fólk. Í því felst ákveðin áskorun nú þegar framboð á afþreyingu er mikið,“ segir Brynjar en greinar hans af Grenndargralinu og Sagnalist hafa meðal annars vakið verðskuldaða athygli hér á Kaffið.is.

Sjá einnig: Er þetta fjarstæðukennd hugmynd?

Brynjar segist alltaf hafa haft gaman af sögulegum fróðleik og að fyrirmynd hans í æsku hafi verið Indiana Jones.

„Ég ætlaði sko alltaf að verða fornleifafræðingur. Í staðinn varð ég sögukennari, eins og Jones er reyndar líka. Grenndargralið varð til í kennslunni og þar með fór boltinn að rúlla. Á sumrin fæ ég að uppfylla gömlu fornleifadraumana þegar ég skottast upp í Hlíðarfjall og gref upp stríðsminjar. Þó enga sáttmálsörk sé að finna kennir ýmissa grasa í hlíðum fjallsins,“ segir Brynjar sem gerði hlaðvarpsþættina Leyndardómar Hlíðarfjalls síðasta haust, þar sem áherslan var á veru setuliðsins í Hlíðarfjalli á hernámsárunum.

Sjá einnig: Hollywood-stjarna skemmti setuliðsmönnum í Hörgárdal

Hann segir að upphaf Grenndargralsins megi rekja til ratleiks í heimabyggð fyrir grunnskólanemendur sem hann fór af stað með árið 2008 – Leitin að Grenndargralinu.

„Á upphafsárunum fékk Grenndargralið viðurkenningu skólanefndar Akureyrarbæjar og veglegan styrk frá Menntamálráðuneytinu. Metnaðurinn var því mikill hjá mér að koma hugmyndafræðinni inn í grunnskólann og að kynna fyrir krökkunum allar þessar skemmtilegu sögur úr nærumhverfi þeirra. Meginstefið hefur alltaf verið saga og menning heimabyggðar. Akureyrar og Eyjafjarðar. Sögurnar teygja oft anga sína í aðra landshluta og út fyrir landssteinana en ræturnar liggja alltaf heima í héraði.“

„Ég reyni að þefa uppi sögur af áhugaverðu fólki og atburðum úr fortíðinni og glæði þær lífi. Eftir að leit nemenda lauk haustið 2017 hefur Grenndargralið einbeitt sér að því að koma sögunum á framfæri með fjölbreyttum hætti, á vefsíðum, með bókaútgáfu og í gegnum hlaðvarp svo eitthvað sé nefnt. Þá má nefna samstarf við ýmsa aðila t.d. Akureyrarbæ, RÚV, Heima er bezt og Akureyri Vikublað og auðvitað Kaffið,“ segir Brynjar.

Auk Grenndargralsins rekur Brynjar fyrirtækið Sagnalist með vini sínum Arnari Birgi Ólafssyni.

„Við bjóðum meðal annars upp á þjónustu sem felst í því að skrá frásagnir einstaklinga – æviþætti, reynslusögur, ferðasögur o.s.frv. Í grunninn er sama hugmyndfræðin þar, að skrá sögur og miðla áfram nema hvað þar er allt á forsendum viðskiptavinarins og allt landið er undir. Við erum aðeins verkfæri í höndum þeirra sem óska eftir þjónustu okkar.“

Brynjar segir að það séu spennandi tímar framundan hjá Grenndargralinu og Sagnalist.

„Það eru stöðugt nýjar hugmyndir að herja á okkur varðandi skráningu og miðlun á spennandi sögum. Sagnalist hefur til að mynda verið að vinna að stóru verkefni um nokkurt skeið á bak við tjöldin sem er mjög spennandi en ekki tímabært að segja frá. Það felur í sér myndræna framsetningu á sögunni og upplifun. Hvað Grenndargralið varðar, þá mun hugmynd frá bernskuárum Leitarinnar mögulega koma til framkvæmdar næsta vetur. Ég sá nefnilega alltaf fyrir mér að Leitin að Grenndargralinu gæti hentað þvert á skólastig þ.e. grunnskóla og framhaldsskóla. Gaman er að segja frá því að samkomulag hefur náðst um að bjóða nemendum í Menntaskólanum á Akureyri upp á Leitina að Grenndargralinu sem valgrein næsta vetur. Það er svo aftur annað mál hvort þau velja hana en gömul hugmynd er engu að síður nú orðin að veruleika að hálfu leyti. Svo vil ég að lokum nefna leit sem Grenndargralið er að ráðast í á næstu dögum og vikum. Við ætlum að reyna að finna Grundargralið. Meira um það síðar.“

Áhugasamir geta kynnt sér Grenndargralið frekar á Facebook eða á heimasíðunni www.grenndargral.is.

Mynd 1: Brynjar Karl og Illugi Gunnarsson, þáverandi menntamálaráðherra, árið 2013 með Grenndargralið.

UMMÆLI